Paul Ryan, varaforsetaefni repúblikana í forsetakosningunum í síðustu viku, segist ekki sjá eftir neinu í kosningabaráttunni en viðurkennir að demókratar hefðu náð betur til kjósenda. „Það særir mann að tapa stórum kosningum sem þessum. En ég sé ekki eftir neinu,“ sagði Ryan í viðtali í gær.
„Við rákum kosningabaráttu eins og við vildum hafa hana og lögðum áherslu á lausnir og hugmyndir. Þetta er tvíeggjað. Það góða er að ég er kominn heim aftur til fjölskyldu og vina, í hverfið þar sem ég ólst upp. Það slæma er að við töpuðum forsetakosningum á viðsjárverðum tímum.“
Búist er við því að Ryan verði áfram formaður fjárlaganefndar þingsins. Vangaveltur hafa verið uppi um hvort hann taki þátt í forsetaslagnum árið 2016.