Farsæll frumkvöðull í Kísildal sem breytti um lífsstíl og hóf að elta ævintýrin um heiminn er nú orðinn miðdepill morðrannsóknar í Mið-Ameríku. Tækninördinn John McAfee er grunaður um að hafa skotið mann til bana í Belís.
McAfee er stofnandi hugbúnaðarfyrirtækis sem sérhæfði sig í vírusvarnarforritum, kenndum við McAfee sjálfan. Hann er nú eftirlýstur vegna morðs á bandarískum manni sem hélt til í Belís. Sá hét Gregory Faull.
Ekki er vitað hvar McAfee er niðurkominn en lögreglan leitaði á sunnudag í sveitasetri hans í á eyjunni Ambergris Caye, undan norðausturströnd Belís. En McAfee var hvergi sjáanlegur.
Málið er nýjasti kaflinn í ævintýralegu lífi McAfees. Hann er einn helsti frumkvöðull vírusvarnarforrita í forritunarheiminum. Það eru þó tveir áratugir síðan hann vann sjálfur í bransanum.
Jeff Wise, vísinda- og ævintýrarithöfundur sem hefur þekkt hinn 67 ára gamla McAfee árum saman, segir að hann hafi byggt veldi sitt frá grunni með traust og áreiðanleika að leiðarljósi. Síðar hafi hann snúið blaðinu við og farið að lifa lífi hins ævintýragjarna milljónamærings.
Hann keppti í kappakstri og fór yfir heilu höfin á sæþotu. Hann setti umtalsvert fjármagn til uppbyggingar á jógasetri í fjöllunum í Colorado. Þar kenndi hann sjálfur.
Wise, sem hefur tekið viðtöl við McAfee á búgarði hans í Nýju Mexíkó og í Belís, segir að McAfee hafi sífellt orðið einrænni og sérkennilegri í hegðun. Hann hafi ekki blandað geði við aðra Bandaríkjamenn í Belís.
„Ég var orðinn viss um að hann væri sjúklegur lygari eða einfaldlega siðblindur þótt mér þætti jafngaman að fylgjast með ævintýralegu lífi hans og honum fannst að lifa því,“ segir Wise.
McAfee setti mörg fyrirtæki á stofn í Belís, m.a. kaffihús og ferjuþjónustu. Hann kynntist svo konu, líffræðingnum Allison Adonizio, sem var þremur áratugum yngri en hann sjálfur.
Hún flutti til Belís og þar byggði McAfee rannsóknarstofu fyrir hana til að rannsaka plöntur regnskógarins. Meðal þess sem var rannsakað var virkni plöntu sem sögð var auka kynorku kvenna. En upp úr þessu sambandi slitnaði.
Blaðamaður á Wired-tímaritinu tók viðtal við McAfee eftir morðið og sagðist hann fela sig á landareign sinni, grafinn í sand. Hann hefði pappakassa yfir höfðinu til að anda.
„Það var mjög óþægilegt,“ sagði hann blaðamanninum. „En þeir munu drepa mig ef þeir finna mig.“
Spurður um morðið á nágranna sínum sagðist McAfee ekkert vita annað en að maðurinn hefði verið skotinn. Hann sagðist óttast að morðingjar Faulls hefðu í raun verið að leita að sér.
„Ég mun ekki undir nokkrum kringumstæðum sjálfviljugur ræða við lögregluna í þessu landi,“ sagði hann. „Þú getur kallað mig taugaveiklaðan en ég veit að þeir munu drepa mig, það er engin spurning. Þeir hafa verið á eftir mér mánuðum saman. Þeir vilja þagga niður í mér. Ég er ekki í uppáhaldi hjá forsætisráðherranum. Ég er þyrnir í augum allra.“
McAfee hefur búið í Belís, sem var áður bresk nýlenda, í fjögur ár. Hann auðgaðist mjög er hann seldi hlutabréf sín í vírusvarnarfyrirtækinu snemma á tíunda áratugnum.