Líklegt er að John Allen, yfirmaður Bandaríkjahers í Afganistan, sleppi fyrir horn þó að hann hafi sent Jill Kelley fjölda tölvupósta, sem FBI segir að hafi verið óviðeigandi. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, segist hafa trú á Allen enda hafi hann staðið sig vel í Afganistan.
Eftir í ljós kom að Allen hafði sent fjölda tölvupósta til Jill Kelley, 37 ára gamallrar konu frá Flórída, ákvað varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna að fresta því að taka ákvörðun um að skipa Allen yfirhershöfðingja herafla Atlantshafsbandalagsins. Tölvupóstarnir eru um 3000 og innihalda 20-30 þúsund blaðsíður af texta.
Ónafngreindur heimildarmaður Associated Press sem lesið hefur tölvupóstana segir að þeir innihaldi meinlausar upplýsingar, en segja megi að það beri ekki vott um fagmennsku af hálfu Allen að senda þá. Í sumum tölvupóstunum sé notað orðalag sem skilgreina má sem daður. Ekkert hefur hins vegar komið fram sem staðfestir að Allen og Kelley hafi átt í ástarsambandi.
Leon Panetta, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur lýst yfir stuðningi við Allen, Hann hafi staðið sig frábærlega í starfi. Panetta varar menn við að draga of miklar ályktanir meðan rannsókn málsins sé ólokið.
Jay Carney, talsmaður Obama, sagði einnig á blaðamannafundi að Obama bæri mikla virðingu fyrir Allen. Hann hefði staðið sig vel í Afganistan og Obama hefði trú á honum.