Ógn við þjóðaröryggi ekki útilokuð

„Ég hef heyrt að þið hafið einhverjar spurningar handa mér," sagði Barack Obama Bandaríkjaforseti þegar hann gekk í salinn á fyrsta blaðamannafundi sem hann boðar til í Hvíta húsinu síðan í ágúst. Ekki kemur á óvart að fyrsta spurningin sem forsetinn fékk varðaði framhjáhaldsmál Davids Petraeus yfirmanns CIA.

Obama var spurður hvort hann gæti fullyrt að þjóðaröryggi hefði ekki verið ógnað vegna ástarsambands Petraeus við ævisagnaritara sinn, Paulu Broadwell. Obama sagðist hafa þær upplýsingar frá FBI að vísbendingar séu um að trúnaðargögnum sem varði þjóðaröryggi hafi verið lekið frá Petraeus. Hann ítrekaði traust sitt í garð Petraeus.

Í fyrstu skaut forsetinn sér nokkuð fimlega undan því að svara hvort FBI hefði ekki átt að upplýsa hann fyrr en raunin var um að verið væri að rannsaka yfirmann leyniþjónustunnar. Bandaríkjaþing farið fram á útskýringar frá FBI um hvers vegna það var ekki gert.

Þegar spurningin var ítrekuð svarði Obama því til að hann vildi ekki dæma um það á þessu stigi málsins. „Enn hafa ekki allar upplýsingar í þessu máli komið fram, en ég hef mikið traust almennt á FBI. Þeir eru að vinna mjög erfitt starf. Og það er líka hugsanlegt að ef mér hefði verið sagt frá þessu, þá sætir þú hér í dag og spyrðir mig hvers vegna ég væri að blanda mér í glæparannsókn.“

Gögn af heimili Broadwell enn til rannsóknar

Petraeus og Broadwell höfnuðu því bæði í yfirheyrslum alríkislögreglunnar að trúnaðargögn hafi farið þeirra á milli. Broadwell er þó ekki laus allra mála, fulltrúar FBI gerðu húsleit á heimili hennar á mánudag og lögðu hald á tölvu og ýmis gögn sem nú eru til rannsóknar með hliðsjón af þjóðaröryggi. Washington Post fullyrðir í dag að markmiðið sé að komast að því hvernig hún hafi komist yfir leynilegar upplýsingar, ef það var ekki í gegnum Petraeus. „Hugsanleg ógn við þjóðaröryggi er enn til rannsóknar,“ hefur Washington Post eftir háttnefndum lögreglumanni. 

Á blaðamannafundinum var Obama einnig spurður um rannsókn þingmannanefndar vegna hryðjuverkaárásarinnar á sendiráð Bandaríkjanna í Benghazi í Líbíu, sem margir hafa tengt við hneykslið innan CIA. Obama fordæmdi gagnrýni sem Susan Rice, sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Sameinuðu þjóðunum, hefur fengið á sig vegna málsins, en hún kom fram fyrir hönd stjórnvalda eftir árásina og lýsti henni sem mótmælum sem farið hefðu úr böndunum. Stjórnvöld hafa síðar viðurkennt á árásin hafi verið skipulögð af skæruliðum með tengingu við Al-Qaeda.

Talið er hugsanlegt að Obama hafi Rice efst á blaði sem mögulegan eftirmann Hillary Clinton í stól utanríkisráðherra, en repúblikanar hafa tjáð andstöðu sína við það og gætu kosið gegn útnefningunni í öldungaráðinu. Obama sagði repúblikana reyna að flekka orðspor Rice með smánarlegum hætti. „Hún lagði sig alla fram við að draga ályktanir út frá þeim njósnagögnum sem henni voru afhent. Ef [öldungadeildarþingmenn repúblikana] vilja ráðast á einhvern, þá eiga þeir að ráðast á mig. Og ég skal glaður taka það samtal við þá.“

Barack Obama boðaði í dag til fyrsta blaðamannafundarins í Hvíta …
Barack Obama boðaði í dag til fyrsta blaðamannafundarins í Hvíta húsinu síðan í ágúst. AFP
Fulltrúar FBI lögðu hald á ýmis gögn við húsleit á …
Fulltrúar FBI lögðu hald á ýmis gögn við húsleit á heimili Paulu Broadwell. Þau eru nú til rannsóknar með hliðsjón af þjóðaröryggi. AFP
Obama sló nokkrum sinnum á létta strengi þegar hann sat …
Obama sló nokkrum sinnum á létta strengi þegar hann sat fyrir svörum blaðamanna í 60 mínútur. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka