56% breskra kjósenda vilja segja skilið við Evrópusambandið og myndu kjósa á þann hátt, fengju þeir færi á því í þjóðaratkvæðagreiðslu Þetta eru niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar breska sunnudagsblaðsins Observer sem birtar eru í blaðinu í dag.
Nokkur munur er á milli flokka. 44% kjósenda Verkamannaflokksins vilja að Bretland segi sig úr ESB, en 39% vilja vera þar áfram.
68% kjósenda Íhaldsflokksins vilja ganga úr Evrópusambandinu, en 24% þeirra vilja vera í því áfram. Af kjósendum Frjálslynda flokksins vilja 39% vera áfram í Evrópusambandinu og 47% ganga úr því.
Af þeim sem svöruðu telja 28% Evrópusambandið vera „gott“ og 45% telja það „slæmt“. Eini aldurshópurinn, þar sem meirihlutinn er fylgjandi ESB-aðild, er fólk á aldrinum 18-34 ára þar sem 44% vilja vera áfram í ESB, en 25% eru á móti áframhaldandi aðild.