Afar stutt er í að samkomulag náist um að greiða Grikkjum úr neyðarsjóði evru-svæðisins, að sögn fjármálaráðherra Frakklands, Pierre Moscovici. Þetta kom fram í máli hans nokkrum klukkustundum eftir að fjármálaráðherrum evru-svæðisins mistókst að komast að samkomulagi um útgreiðslu láns til Grikkja.
Moscovici segir í viðtali við Europe 1 útvarpsstöðina í morgun að hann sé sannfærður um að samkomulagið muni nást. Að öðrum kosti væri evru-samstarfinu ógnað. Hann segir að ekkert slíkt sé í gangi, Grikkir hafi lagt sitt af mörkum og mjög stutt sé í að samkomulagið náist.
Seint í gærkvöldi runnu viðræður fjármálaráðherranna út í sandinn í Brussel og í tilkynningu frá þeim kom fram að viðræðunum yrði haldið áfram í næstu viku.