Kynferðisáreitni samfélagsmein á Indlandi

Indverskar konur mótmæla vaxandi kynbundnu ofbeldi í héraðinu Hyderabad.
Indverskar konur mótmæla vaxandi kynbundnu ofbeldi í héraðinu Hyderabad. AFP

Hæstiréttur Indlands felldi í dag áfellisdóm yfir ríkisstjórn landsins fyrir að bregðast skyldu sinni til að sporna við kynferðislegri áreitni gegn konum. Ákveðið hefur verið að óeinkennisklæddir kvenlögreglumenn skuli sinna löggæslu á opinberum stöðum.

Dómarar í hæstarétti hvöttu stjórnvöld til aðgerða gegn þeim útbreidda ósið í indversku samfélagi sem almennt gengur undir því sakleysislega heiti „Evu-hrekkir“ (e. Eve-teasing) en í því felst m.a. margskyns kynferðislegt áreiti gagnvart konum, allt frá káfi til misþyrmingar.

„Við höfum veitt því athygli að engin heildarlög hafa verið sett í þessu landi til að sporna með virkum hætti við kynferðislegri áreitni,“ er haft eftir hæstaréttardómurunum K.S. Radhakrishnana og Dipak Misra. Þeir beindu því til stjórnvalda að auka löggæslu á opinberum stöðum, þar á meðal mörkuðum, almenningsgörðum, ströndum og í almenningssamgöngum.

Þeir fóru jafnframt fram á að kvenkyns lögregluþjónar verði settir í verkefnið og vöruðu við því að verði ekkert gert til að berjast gegn þessu samfélagsmeini gætu afleiðingarnar orðið skelfilegar.

Unglingspiltum finnst sjálfsagt að áreita konur

Fjöldi mála hefur undanfarið komið fram í Indlandi þar sem stúlkur og konur eru áreittar á almannafæri. Eru mörg dæmi þess að konurnar verði fyrir alvarlegu andlegu áfalli við lífsreynsluna og hafa sumar svipt sig lífi í kjölfarið.

Á síðasta ári var gerð rannsókn á 1.000 unglingsstrákum í Múmbaí, sem leiddi í ljós að yfirþyrmandi meirihluti þeirra taldi skaðlaust og eðlilegt að áreita konur. Þá hefur lengi verið kvartað yfir því að indverska lögreglan taki kynferðisáreitni ekki alvarlega og telji hana ekki glæp. Virðist hugarfarið vera að þetta sé allt í lagi vegna þess að aðeins sé verið að „stríða“ fórnarlömbunum.

Niðurstaðan verður því sú að margar konur þegja yfir áreitninni vegna þess að þær telja að leiti þær til lögreglu og dómstóla verði þær hæddar og smánaðar eða jafnvel áreittar enn meira.

Indverskar konur halda slagorðum á loft í mótmælum gegn vaxandi …
Indverskar konur halda slagorðum á loft í mótmælum gegn vaxandi kynferðisofbeldi í Nýju-Delhi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert