Breski rithöfundurinn J.K. Rowling, sem skrifaði meðal annars bækurnar um galdrastrákinn Harry Potter, gagnrýnir forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, og segir að hann hafi svikið þá sem hafa orðið fórnarlömb óvæginna fjölmiðla.
Rannsóknarnefnd, sem Brian Leveson dómari stýrði, leggur til að bresk dagblöð lúti lögbundnu aðhaldi. Cameron telur að þá yrði prentfrelsinu stefnt í hættu.
Rowling, sem skýrði rannsóknarnefndinni frá því á síðasta ári að friðhelgi einkalífs barna hennar hefði ítrekað verið brotin, segir að Cameron hafi brugðist fólki eins og henni sem hafi ákveðið að bera vitni um misgjörðir fjölmiðla. Þetta er haft eftir Rowling á vef þeirra sem urðu fyrir hlerunum fjölmiðla í eigu News Corp, Hacked Off.
Í skýrslu rannsóknarnefndar Levesons er hvatt til þess að sett verði á sjálfstætt eftirlitsembætti, skipulagt af blöðunum, en öflugra en núverandi eftirlitsstofnun, PCC, sem þykir tannlaus. Hið eflda embætti verði stutt lögum, með þeim rökum að vítaverð hegðun breskra blaða undanfarna áratugi hafi gert að engu fullyrðingar um að þau ynnu í almannaþágu.
Í yfirlýsingu Levesons sagði að breski blaðaiðnaðurinn hefði „rústað lífi saklauss fólks“ og „látið eins og eigin siðareglur, sem hann setti sér sjálfur, væru ekki til“. Hegðun blaðanna hefði stundum verið svívirðileg og borið vitni „glannaskap þar sem æsifréttir fengju forgang nánast án tillits til tjónsins, sem þær gætu valdið“.
Leveson leggur til að hið óháða embætti geti sektað blöðin um allt að eina milljón punda (rúmlega 200 milljónir króna). Blöðin setji sér sjálf reglur, sem sæti endurskoðun fyrir opnum tjöldum. Blöðum, sem ekki fallist á þetta, megi refsa fyrir hvaða dómstól sem er, til dæmis með því að láta þau greiða málskostnað þótt þau verði sýknuð.
Cameron segist aftur á móti hafa alvarlegar áhyggjur og efasemdir um þessar tillögur og bætti við að hann teldi að ekki yrði aftur snúið „ef þættir regluverks um prentmiðla yrðu settir í landslög“. Cameron kvaðst mundu ræða við hina flokkana á þingi hvort „aðrir kostir“ kæmu til greina til að knýja fram þau grundvallaratriði, sem Leveson telji að þurfi að vera til staðar.
Á vefnum Hacked Off kemur fram að 51 þúsund manns hafa skrifað undir bænaskrá þar sem formenn Íhaldsflokksins, Frjálslyndra demókrata og Verkamannaflokksins vinna saman að þessu máli.