Atlantshafsbandalagið, NATO, hefur samþykkt beiðni Tyrkja um að þeir fái að koma fyrir Patriot eldflaugavarnakerfi við landamæri sín að Sýrlandi.
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, segir að ákvörðunin endurspegli „staðfastan ásetning“ bandalagsins um að tryggja öryggi hinna 28 aðildarríkja sinna. Hann lagði áherslu á að eldflaugarnar væru eingöngu til varnar.
Í yfirlýsingu, sem send var á vegum NATO, segir að bandalagið hafi samþykkt beiðnina í þeim tilgangi að vernda almenna borgara og landsvæði í Tyrklandi og til þess að reyna að hamla því að átökin í Sýrlandi berist í meiri mæli yfir landamærin.
Rússar eru uggandi yfir þessari ákvörðun NATO og hafa fullyrt að með varnarkerfinu aukist líkurnar á því að ófriðurinn í Sýrlandi breiðist út til nágrannalandanna. Rasmussen ræddi við Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands í dag. Þar ítrekaði Rasmussen að tilgangurinn væri eingöngu í varnarskyni. Lavrov sagði aftur á móti að hætta væri á að Patriot flaugarnar yrðu notaðar.
Hann blés á fullyrðingar um að yfirvöld í Sýrlandi hafi komið sér upp efnavopnum til að beita gegn almennum borgurum. Hann sagði að þetta væri ekki í fyrsta skiptið sem slíkur orðrómur kæmi upp.