Tyrkir vita hvar Sýrlendingar geyma eldflaugar sínar og hversu margar þær eru. Þetta sagði utanríkisráðherra Tyrklands, Ahmet Davutoglu, í dag. NATO samþykkti í gær beiðni Tyrkja um að fá að koma fyrir Patriot-eldflaugavarnakerfi við landamærin að Sýrlandi.
„Assad á um það bil 700 flugskeyti. Nú vitum við nákvæmlega hvar þau eru staðsett og hver hefur umsjón með þeim,“ sagði Davutoglu í viðtali við tyrkneskt dagblað.
Hann sagði að alþjóðasamfélagið óttaðist að Sýrlandsher myndi ráðast inn í nágrannaríkin, sér í lagi Tyrkland, en stjórnvöld þar hafa ekki legið á þeirri skoðun sinni að Assad Sýrlandsforseti ætti að fara frá völdum hið fyrsta.
Ekki hefur verið ákveðið hversu umfangsmikið eldflaugavarnarkerfi Tyrkja verður eða nákvæm útfærsla á því.
Frétt mbl.is: Tyrkir setja upp varnarkerfi gegn Sýrlendingum