Tvenn samtök múslíma í Frakklandi hafa höfðað mál gegn franska háðsádeiluritinu Charlie Hebdo sem birti myndir af Múhameð spámanni nöktum í september.
Charlie Hebdo birti myndirnar á sama tíma og mótmælt var víða um heim vegna bandarísku kvikmyndarinnar þar sem lítið er gert úr spámanninum.
Fara samtökin fram á að fá 580 þúsund evrur, 95 milljónir króna, í bætur frá tímaritinu. Höfða þau málið gegn útgáfunni, framkvæmdastjóra blaðsins og tveim skopteiknurum.
Nú þegar hafa tvenn önnur samtök múslíma höfðað mál gegn Charlie Hebdo vegna sömu teikninga. Lögmaður Charlie Hebdo segir að enn einu sinni sé reynt að hræða líftóruna úr aðstandendum blaðsins með hótunum og lögsókn vegna háðsins sem birtist í blaðinu samkvæmt franskri hefð.
Árið 2008 var þáverandi framkvæmdastjóri Charlie Hebdo, Philippe Val, sýknaður af kæru samtaka franskra múslíma sem sökuðu hann um að hafa móðgað íslam með birtingu skopmynda af Múhameð spámanni. Áfrýjunardómstóll kvað síðan upp þann úrskurð að hann hefði ekki móðgað múslíma með birtingu myndanna þar sem þær hefðu verið ádeila á öfgamúslíma ekki samfélag múslíma sem heild.
Í nóvember 2011 olli Charlie Hebdo enn usla með birtingu blaðs sem var með gestaritstjóra, engan annnan en Múhameð spámann.