Úr fangaklefa og í sjúkrarúm

John McAfee.
John McAfee. AFP

Auðkýfingurinn og frumkvöðullinn John McAfee var fluttur með hraði á sjúkrahús skömmu eftir að yfirvöld í Gvatemala höfnuðu beiðni hans um pólitískt hæli í landinu. Framselja á McAfee til Belís en þar er hann eftirlýstur vegna morðs á nágranna sínum.

Lögfræðingur McAfees segir að hann hafi fengið tvö minniháttar hjartaáföll og því hafi orðið að flytja hann úr fangaklefanum og á sjúkrahús.

Hinn 67 gamli Bandaríkjamaður var útskrifaður skömmu síðar og fluttur aftur í fangaklefann. Læknir á sjúkrahúsinu segir að McAfee sýni streitueinkenni og sé með háan blóðþrýsting. Hins vegar sé ástand hans ekki lífshættulegt.

Sjúkrahúsheimsóknin er nýjasta uppákoman í æsilegri sögu McAfees, sem stofnaði fyrirtæki á níunda áratugnum er seldi vírusvarnir og seldi það nokkrum árum síðar og hagnaðist gríðarlega. Við sögu hafa svo komið eiturlyf, vændiskonur og nú morð.

Lík nágranna McAfees fannst 11. nóvember.  Það var húshjálpin sem kom að líkinu og í ljós kom að hann hafði verið skotinn til bana í höfuðið.

Nágranninn hafði áður kvartað til lögreglu um að McAfee ætti ólöglegt vopnasafn og að húss hans gættu hættulegir varðhundar sem hræddu gesti og gangandi um hverfið.

McAfee lagði svo á flótta en skaut fyrst alla fjóra hunda sína til bana. Hann gat farið huldu höfði vikum saman eða allt þar til hann skaut upp kollinum í nágrannalandinu Gvatemala.

McAfee hefur þó enn ekki beinlínis verið sakaður um morðið heldur segist lögreglan vilja ná tali af honum vegna málsins.

Frétt mbl.is: Kynlíf, eiturlyf og vírusvarnir

Frétt mbl.is: Tölvunörd sem þefaði ævintýrin uppi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert