Obama biður um 60 milljarða vegna Sandyar

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna bað Bandaríkjaþing í gærkvöldi um 60,4 …
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna bað Bandaríkjaþing í gærkvöldi um 60,4 milljarða dollara aukafjárveitingu vegna fellibylsins Sandyar. AFP

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, bað Bandaríkjaþing í gærkvöldi um 60,4 milljarða dollara aukafjárveitingu vegna fellibylsins Sandyar. Féð á að nota til endurbyggingar á þeim svæðum sem urðu fyrir barðinu á Sandy og til bótagreiðslna til íbúa þessara svæða. 

Búist er við því að hart verði deilt á þingi um fjárveitinguna, sem jafngildir hátt í 8.000 milljörðum íslenskra króna. Tryggingafélög bæta stóran hluta tjónsins, en þó er allstór hluti þess sem ekki fellur undir bótaskyldu trygginganna.

Ríkisstjórar New Jersey og New York fagna beiðni Obama og segja að aðstoðin myndi flýta fyrir uppbyggingu. 

Þriðja dýrasta óveðrið

Sandy kom að norðausturströnd Bandaríkjanna þann 29. október. Meira en 110 létust, hundruð þúsunda íbúa misstu heimili sín, húsnæði fjölmargra fyrirtækja varð fyrir skemmdum og miklar skemmdir urðu á ýmsum mannvirkjum. Sandy er þriðja kostnaðarsamasta óveðrið sem farið hefur yfir Bandaríkin.

Mestur kostnaður fylgdi í kjölfar fellibylsins Katrínar árið 2005 og næstmestur var kostnaðurinn vegna fellibylsins Andrésar árið 1992.

Fellibylurinn Sandy olli víða gríðarlegri eyðileggingu.
Fellibylurinn Sandy olli víða gríðarlegri eyðileggingu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert