„Palestína er okkar land og þjóð frá hafinu að ánni, frá norðri til suðurs, og við getum ekki gefið eftir tommu eða neinn hluta þess,“ sagði Khaled Meshaal, leiðtogi Hamas-samtakanna, á fjöldafundi á Gaza-ströndinni í dag og vísaði þar til Miðjarðarhafsins og Jórdan-árinnar. Fundurinn var haldinn í tilefni af því að 25 ár eru frá stofnun samtakanna.
Meshaal, sem verið hefur í útlegð frá Palestínu undanfarin 37 ár er nú staddur á Gaza-ströndinni en hann hafði áður boðað komu sína þangað í kjölfar vopnahlésins sem samið var um á milli Hamas og Ísraela á dögunum. Í ræðu sinni hafnaði hann ennfremur að Ísraels-ríki yrði viðurkennt og kallaði eftir því að allir Palestínumenn sameinuðust.
Meshaal sagði ennfremur að andspyrna væri rétta leiðin til þess að endurheimta réttindi Palestínumanna sem og allar tegundir baráttu hvort sem hún væri pólitísk, diplómatísk, lagaleg eða barátta fyrir því að afla sér stuðnings almennings. En án andspyrnu væri ekkert vit í slíkum baráttum.
Þá kallaði hann eftir því að Palestínumenn sameinuðust innan Frelsissamtaka Palestínu (PLO). Hamas á ekki aðild að samtökunum en Meshaal sagði fyrir ári síðan að unnið væri að inngöngu þeirra í samtökin.