Skelfd börn og skattaframtöl í kostulegri kosningabaráttu

Þau eru mörg kostulegu og eftirminnilegu augnablikin úr kosningabaráttu þeirra Mitts Romneys og Baracks Obama. í baráttunni var grínast og hæðst, tekist á um skattframtöl Romneys og fæðingarvottorð Obama.

Ýmis ummæli féllu - sum í grýttan jarðveg. Þannig varð það t.d.  með 47% hans Romneys. Hann sagði á fjáröflunarfundi í maí að 47% bandarísku þjóðarinnar væru háð ríkinu fjárhagslega. Þessi hópur myndi kjósa Obama. Upptaka af þessum ummælum var gerð opinber í september, örfáum vikum fyrir kosningadag. Margir héldu að hún myndi hafa gríðarleg og neikvæð áhrif á fylgi Romneys, en annað átti eftir að koma í ljós.

Kosningabaráttan á það til að harðna eftir því sem nær dregur kjördegi. Það sem hins vegar kom ef til vill í veg fyrir það að slúður og hneykslisfréttir kæmu upp á yfirborðið í þessum kosningum var sú staðreynd að mannskæður fellibylur gekk yfir Bandaríkin. Fórnarlömb Sandy og það gríðarlega tjón sem fellibylurinn olli varð til þess að vopnin voru lögð til hliðar.

Frambjóðendurnir tóku þó upp á ýmsu til að halda athygli áhorfenda og vinna atkvæði kjósenda. Þeir tókust á í þrennum kappræðum og undir lokin þótti nokkuð tvísýnt hvor myndi hafa betur.

„Fjögur ár til viðbótar,“ sungu stuðningsmenn Obama þegar ljóst var að hann hefði verið endurkjörinn forseti. Obama viðurkenndi að hafa haft fiðrildi i maganum þann dag - og setti svo á Twittersíðu sína vinsælustu mynd samfélagsvefsins frá upphafi. Önnur fræg mynd úr þessari baráttu sýnir háskælandi barn í fangi Romneys á einum af hans fjölmörgu kosningafundi.

Meðfylgjandi er myndskeið sem sýnir hápunkta kosningabaráttunnar og hér að ofan má sjá með því að smella á renninginn myndasyrpu frá hápunktum baráttunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert