Búið er að bera lík tveggja sex ára gamalla drengja til grafar í bænum Newtown í Connecticut í Bandaríkjunum, en þeir voru á meðal fórnarlamba vopnaðs manns sem framdi fjöldamorð í Sandy Hook-skólanum sl. föstudag.
Útfarir fórnarlamba fjöldamorðingjans fara nú fram. Lík Noah Pozner og Jack Pinto voru þau fyrstu sem voru jarðsett í dag.
Alls létust 20 börn og sex konur í árásinni. Morðinginn, Adam Lanza, myrti jafnframt móður sína áður en hann fór inn í skólann. Þar tók hann eigið líf eftir að hafa framið voðaverkin.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, heimsótti Newtown í gær þar sem hann var viðstaddur minningarathöfn. Hann sagði að Bandaríkjamenn yrðu að gera allt sem í þeirra valdi stæði til að vernda börn.
Obama sagðist ætla að beita sínum áhrifum til að koma í veg fyrir að svona harmleikur gæti endurtekið sig. Hann sagði ennfremur að bandaríska þjóðin syrgði með íbúum Newtown.
„Við getum ekki látið þetta viðgangast lengur,“ sagði Obama.
„Það verður að stöðva þessa harmleiki og til að stöðva þá þá verðum við að breytast,“ sagði forsetinn ennfremur.