Frelsið of dýru verði keypt?

„Charlotte, Daniel, Olivia, Josephine, Ana, Dylan, Madeline, Catherine, Chase, Jesse, James, Grace, Emilie, Jack, Noah, Caroline, Jessica, Benjamin, Avielle, Allison. Guð hefur kallað þau til sín,“ sagði Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, þegar hann las upp nöfn þeirra 20 barna sem létust í skotárásinni í grunnskólanum Sandy Hook í bænum Newtown í Connecticut í Bandaríkjunum á föstudaginn.

Forsetinn fór til Newtown í gærkvöldi og var þar viðstaddur minningarathöfn um hin látnu. Auk barnanna 20 létust sjö fullorðnir í árásinni. Ekkasog og kveinstafir viðstaddra kváðu við undir nafnalestri forsetans. 

„Dawn Hocksprung og Mary Sherlach, Vicki Soto, Lauren Russeau, Rachel Davino og Anne Marie Murphy. Þær brugðust við eins og við vonumst öll til þess að bregðast við í skelfilegum aðstæðum sem þessum, með hugrekki og kærleika. Þær fórnuðu lífi sínu til þess að vernda börnin sem þeim hafði verið falið að gæta,“ hélt forsetinn áfram þegar hann las upp nöfn þeirra sex starfsmanna skólans sem féllu fyrir hendi morðingjans, Adams Lanza. Að auki myrti hann móður sína, Nancy Lanza.

Ýjaði að breytingum á vopnalöggjöf

Þetta er í fjórða skiptið í forsetatíð Obama sem hann stendur í þessum sporum; að hughreysta þjóð sína eftir að byssumaður hefur myrt fjölda saklauss fólks. Þetta er í fjórða skiptið sem hann hughreystir aðstandendur hinna myrtu og nú ýjaði hann að breytingum á vopnalöggjöf landsins, án þess að fullyrða nokkuð beinum orðum.

Hann sagði að allir yrðu að leggjast á eitt til að koma í veg fyrir glæpi sem þessa í framtíðinni; lögregla, heilbrigðiskerfið, skólar og foreldrar.

„Þetta er forgangsverkefni okkar, að hugsa um börnin okkar. Það er mikilvægasta verkefnið. Ef okkur tekst það ekki, þá tekst okkur ekki neitt. Þannig verður við dæmd, sem samfélag,“ sagði Obama. „Og getum við sagt, með því að nota þennan mælikvarða, að við séum að standa við skyldur okkar sem þjóð? Getum við sagt með hreinni samvisku að við séum að gera nægilega mikið til þess að halda börnunum okkar, öllum börnunum okkar, frá hættu?“

Er frelsið til vopnaeignar of dýru verði keypt?

Obama varpaði upp þeirri spurningu hvort frelsi eins til vopnaeignar gæti leitt til þess að skerða frelsi annarra til þess að eiga hamingjusamt og innihaldsríkt líf. „Erum við tilbúin til þess að fullyrða að við getum ekkert gert þegar við horfum upp á blóðblað sem þetta?“ spurði forsetinn. 

„Erum við tilbúin til þess að fullyrða að ofbeldi sem þetta, sem gengur yfir börnin okkar ár eftir ár, sé á einhvern hátt það verð sem við þurfum að greiða fyrir frelsið?“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert