Á sama tíma og ríkisstjórnir boða niðurskurð fjölgar atvinnulausum í Evrópu sem og víðar í heiminum. Kreppan bítur á mörgum evrópskum heimilum þessa mánuðina og hefur fjölgað um milljónir í hópi fátækra Evrópubúa. Skiptir þar engu hvort viðkomandi er barn að aldri eða eldri borgari, kreppan eirir engri kynslóð.
Staðan er einna verst í Suður-Evrópu og hafa lönd eins og Grikkland og Portúgal þurft að leita á náðir annarra ríkja í Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Skuldavandi Spánar og Ítalíu er einnig alvarlegur en þar hefur atvinnuleysi aukist jafnt og þétt.
Fimm manna fjölskylda lifir á 133 þúsund krónum
„Svartholið stækkar og stækkar,“ segir hin 52 ára gamla Mercedes Gonzalez. Hún hefur úr tæplega 800 evrum, 133 þúsund krónum, að moða á mánuði til þess að framfleyta fjölskyldu sinni í úthverfi Madríd, Fuenlabrada.
Í júlí fékk hún 426 evrur, 71 þúsund krónur, í atvinnuleysisbætur en bæturnar voru lækkaðar í 360 evrur, 60 þúsund krónur í nóvember. Þann 1. september var virðisaukaskattur hækkaður á Spáni og að sögn Gonzalez hækkaði verð á matvælum og annarri nauðsynjavöru í kjölfarið.
Hún segir stöðu fjölskyldunnar sífellt versna en bæði hún og eiginmaður hennar eru án atvinnu sem og tveir af þremur uppkomnum sonum þeirra.
Á Spáni blasir við alvarleg félagsleg kreppa þar sem fjórðungur þjóðarinnar er án atvinnu og niðurskurður ríkisins hefur bitnað harkalega á mennta- og heilbrigðiskerfinu. Þúsundir skuldsettra fjölskyldna hafa endað á götunni eftir að hafa misst íbúðir sínar vegna vanskila. Hefur þetta haft alvarleg áhrif á þjóðarsálina en tveir fasteignaeigendur sem bera átti út frömdu sjálfsvíg þegar kom að útburði. Svipaðir harmleikir hafa komið upp á Ítalíu og Grikklandi.
Skatturinn veitir atvinnulausum ekki grið
Á Ítalíu fjölluðu fjölmiðlar með því er atvinnulaus múrari, Giuseppe Campaniello, sem skuldaði skatta kveikti í sér fyrir utan skattstofuna í Bologna í lok mars og lést af völdum sára sinna níu dögum síðar.
Ekkja hans, Tiziana Marron, 48 ára, segir í samtali við AFP fréttastofuna að ekki sé hægt að ætlast til þess að sjálfstætt starfandi múrari sem er atvinnulaus geti greitt skatta. Eiginmaður hennar hafi verið án atvinnu mánuðum saman en skatturinn hafi ekki eirt honum frekar en öðrum.
„Giuseppe fékk enga aðstoð og honum leið eins og hann væri fastur upp við vegg. Þennan morgun varð hann að mæta í yfirheyrslu vegna ólöglegra skattsvika. Málið hefði aldrei átt að ganga svo langt. Við gerum öll mistök en hann stal aldrei frá einum né neinum,“ segir Marron.
Hún segir að Giuseppe hafi með þessu viljað mótmæla þeim lögum sem gildi á Ítalíu, þetta hafi ekki verið sjálfsvíg tengt kreppunni heldur hafi dauði hans miklu frekar morð af hálfu ríkisins.
En Marrone glímir ekki bara við sorgina við fráfall eiginmannsins heldur situr hún uppi með gríðarlegar skuldir hans. Hefur hún 450 evrur, 75 þúsund krónur, til að lifa af á mánuði og þarf að reiða sig á fjárhagsaðstoð frá aldraðri móður.
Vilja fara úr landi en hafa ekki ráð á flugmiðum
Í Grikklandi er staðan svipuð en í apríl svipti 77 ára gamall lyfjafræðingur sig lífi og lét eftir sig sjálfsvígsbréf þar sem hann sakaði stjórnvöld um að hafa svipt sig möguleikanum á mannsæmandi lífi.
Atvinnuleysi er litlu minna í Grikklandi en Spáni en í ágúst voru 25,4% án atvinnu. 31% Grikkja búa við fátækramörk og er þetta mun hærra hlutfall heldur en víðast annars staðar í Evrópu.
George Tsouvalakis, 31 árs gamall atvinnulaus smiður og eiginkona hans, Lia, sem er þrítug að aldri eru hluti kynslóðar sem hefur orðið illa út úr kreppunni í Grikklandi. Þau leita nú leiða til þess að yfirgefa Grikkland ásamt tveggja ára gamalli dóttur sinni. Þau hafa hins vegar ekki ráð á því að kaupa flugmiða úr landi. Tekjur þeirra lækkuðu úr 2.500 evrum, 415 þúsund krónum, á mánuði fyrir kreppu í 400 evrur, 66 þúsund krónur, að hámarki nú.
„Við eigum að koma okkur úr landi tel ég en við höfum ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að fara úr landi. Það er vandinn sem blasir við okkur - að öðrum kosti værum við þegar farin,“ segir Lia.
Niðurskurður í mennta- og heilbrigðiskerfinu
Í Portúgal er áætlað að 24,4% þjóðarinnar nálgist fátækramörk og er það einkum ungt fólk sem sér fáa sólargeisla fram undan.
Nilce Carvalho er 29 ára gömul með meistaragráðu í leiklist frá Coimbra háskólanum. En hún hefur ekki lokið námi formlega þar sem hún skuldar háar fjárhæðir í skólagjöld. Hún hefur birt ákall til vinnuveitenda á Facebook síðu sinni þar sem hún segir að henni séu allir vegir ófærir. Enga vinnu sé að fá fyrir ungt fólk sem smátt og smátt grefst dýpra ofan í skuldafen.
Staðan er grafalvarleg víða í Evrópu í dag en síðan er spurning um hvert framhaldið verður. Hvaða framtíð bíður þeirra ungmenna sem nú alast upp þar sem skorið hefur verið niður í heilbrigðis- og menntakerfinu. Atvinnuleysisbætur nægja ekki til að framleita fjölda fjölskyldna og sá hópur barna sem ekki fær næga næringu stækkar ört í löndum eins og Spáni, Ítalíu, Portúgal og Grikklandi.