Þegar bandarískir fjölmiðlar greina frá voðaverkunum í Newtown í Connecticut í Bandaríkjunum, þá er þar iðulega sagt að Adam Lanza hafi myrti 20 börn og sex fullorðna. Eitt fórnarlambið gleymist stundum.
Það er Nancy móðir hans, sem var sú fyrsta sem féll fyrir hendi hans, áður en hann hélt í Sandy Hook grunnskólann og myrti þar bæði börn og starfsfólk.
Sú mynd sem hefur verið dregin upp af Nancy Lanza í fjölmiðlum er býsna mismunandi. Sums staðar hefur verið greint frá því að hún hafi lifað tvöföldu lífi; verið dæmigerð úthverfamóðir á yfirborðinu, en undir niðri hafi leynst byssuglöð móðir sem þjálfaði son sinn í meðferð skotvopna frá unga aldri.
Foreldrar Adams Lanza voru skilin og hann bjó hjá móður sinni í góðu hverfi í Newtown. Nancy átti að minnsta kosti einn árásarriffil og tvær hálfsjálfvirkar skammbyssur sem sonur hennar notaði til að myrða hana og fólkið í skólanum.
Fyrrum mágkona Nancyar sagði í viðtali við bandarísku sjónvarpsstöðina CNN að Nancy hefði verið svokallaður „Prepper“ en það er samheiti yfir fólk sem er viðbúið hinu versta, glundroða af einhverju tagi, til dæmis efnahagslegum og er tilbúið til að gera hvað sem er til að verja sjálft sig, komi til slíks ástands.
Vinir Nancyar hafa lýst henni sem blíðri og umhyggjusamri konu sem hafði áhuga á byssum og skotfimi og kenndi Adam, hinum feimna syni sínum, að umgangast skotvopn. Að minnsta kosti þykir ljóst að henni þótti vænt um son sinn, sem virðist hafa verið ákaflega greindur en átti í miklum erfiðleikum með samskipti. Fáir virðast hafa þekkt hann vel.