Watson bannað að nálgast hvalveiðiskip

SSS San Simon, eitt af skipum Sea Shepherd samtakanna og …
SSS San Simon, eitt af skipum Sea Shepherd samtakanna og það nýjasta. AFP

Áfrýjunardómstóll í Los Angeles í Bandaríkjunum hefur skipað Sea Shepherd-samtökunum að halda sig að minnsta kosti 450 metra frá japönskum hvalbátum við Suðurskautslandið. Samtökin ætla að áfrýja úrskurðinum og heita því að halda áfram að „vernda hvali með skipum sínum og lífi“ og hafa boðað sína stærstu aðgerð til þessa.

Í úrskurði dómstólsins segir að samtökin og formanni þeirra, Paul Watson sem er eftirlýstur af alþjóðalögreglunni Interpol, sé bannað að sigla að skipum japönsku hvalrannsóknarstofnunarinnar og japönskum hvalveiðiskipum og að auki sé þeim bannað að haga siglingu skipa sinna á þá vegu að það gæti ógnað öryggi rannsóknar- og hvalveiðiskipanna.

Stigvaxandi átök

Japanska hvalrannsóknarstofnunin fagnar úrskurðinum og það gera hvalveiðimenn einnig. „Sea Shepherd stunda skemmdarverk og ofbeldi sem ógna lífi og eignum þeirra sem eru um borð í skipunum,“ segir Shigehito Numata, yfirmaður hvalveiðideildar japönsku veiðimálastofnunarinnar.

Undanfarin ár hafa átök á milli Sea Shepherd og hvalskipanna við Suðurskautslandið farið stigvaxandi og urðu Japanar að hætta hvalveiðum sínum þegar stutt var liðið á veiðitímabilið í fyrra vegna árása samtakanna.

Aðgerðin ekkert umburðarlyndi

Watson, sem hefur farið huldu höfði síðan í sumar, staðfesti nýverið að hann væri nú um borð í einu skipa Sea Shepherd og að hann væri tilbúinn að takast á við japanska hvalveiðimenn.

Sea Shepherd hafa boðað viðamiklar aðgerðir við Suðurskautslandið á vertíðinni sem fer að hefjast og nefnast þær Operation Zero Tolerance, eða „Aðgerðin ekkert umburðarlyndi“. Þar verða samtökin með fjögur skip, þyrlu og þrjár litlar ómannaðar njósnaflugvélar. Alls verða um 100 manns við aðgerðirnar.

Paul Watson formaður samtakanna Sea Shepherd.
Paul Watson formaður samtakanna Sea Shepherd. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert