Konur forðist nauðgun með chili-dufti

Ummæli lögreglustjóra á Indlandi um <a href="/frettir/erlent/2012/12/17/hopnaudgun_i_straetisvagni_i_delhi/">hópnauðgun sem átti sér stað í strætisvagni</a> í Delhi hafa vakið gríðarleg viðbrögð. Lögreglustjórinn ráðlagði konum að komast hjá nauðgun með því að vera ekki á ferðinni eftir myrkur og að vera vopnaðar chili-dufti til að henda í andlit ofbeldismanna. Lögreglustjórinn fer með völd í úthverfi Mumbai.

Ranjana Kumari, sem þekkt er í heimalandinu fyrir að berjast fyrir kvenréttindum, segir sjónarmið lögreglustjórans einkennast af kvenfyrirlitningu.

„Þeir vilja að konur séu bara heima hjá sér. Og hvernig á chili-duft að gagnast gegn sex eða sjö mönnum?“ segir hún.

Kajol Batra, 28 ára námsmaður í höfuðborginni, segir þessa hugmynd fáránlega. „Við eigum ekki að vera hræddar við að fara út og eigum ekki að þurfa að verja okkur með kryddi,“ <a href="http://www.guardian.co.uk/world/2012/dec/20/indian-police-chilli-powder-rape">segir hún í grein í Guardian. </a>

Fjöldamótmæli voru á Indlandi í gær, fimmtudag. Námsmenn voru meðal þeirra sem fjölmenntu um stræti og torg. Fólkið krafðist harðra refsinga yfir mönnunum sex sem sakaðir eru um að hafa ráðist á og nauðgað 23 ára konu í strætisvagni í Delhi.

Fórnarlambið liggur enn þungt haldið á sjúkrahúsi. Í ljós hefur komið að konan og vinur hennar lágu nakin og í blóði sínu í vegkanti í um klukkustund áður en lögreglan kom á vettvang. Um 50 manns söfnuðust saman hjá fólkinu en enginn rétti því hjálparhönd. Lögreglan varð að fara á næsta hótel og ná í lök til að hylja konuna og vin hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert