Mynd 1 af 46Fundur til stuðnings stjórnmálaflokknum Nýju lýðræði í Aþenu fyrir kosningarnar í maí. Kjósa þurfti tvisvar til þingsins þar sem enginn flokkur fékk meirihluta. Grikkir hafa mótmælt oft á árinu. Sumir vilja meina að ítök Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins séu of mikil og að niðurskurður sem farið hefur verið í sé of harkalegur.AFP
Mynd 2 af 46Katrín hertogaynja af Cambridge ásamt eiginmanninum og bróður hans, Vilhjálmi og Harry prins, í London í tilefni af 60 ára valdaafmæli Elísabetar drottningar.AFP
Mynd 3 af 46Tíbetski andófsmaðurinn Jamphel Yeshi hleypur alelda um götur Nýju-Delhi í mars. Hann hefur verið gerður útlægur frá Tíbet.AFP
Mynd 4 af 46Fyrrverandi hermaður talibana gengur til liðs við stjórnarherinn í Afganistan við sérstaka athöfn í mars.AFP
Mynd 5 af 46Flóttafólk frá Búrma á leið til Bangladess á litlum báti. Múslímar hafa orðið fyrir miklu aðkasti í Búrma og freista þess að komast til nágrannalandsins Bangladess. Ekki ná allir bátar að strönd.AFP
Mynd 6 af 46Leigubílar í Hoboken í New Jersey á kafi í vatni eftir fellibylinn Sandy. AFP
Mynd 7 af 46Villtur hlébarði klifrar upp net eftir að hafa fallið ofan í vatnstank í Haskhowa. Bjarga þurfti dýrinu upp úr tankinum með því að láta net síga til þess.AFP
Mynd 8 af 46Barack Obama ásamt fjölskyldu sinni á kosningavöku 6. nóvember.AFP
Mynd 9 af 46Ferðamaður situr við líkan af hákarli í Bangkok. Taíland hefur í fleiri ár haft mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn en flóð og aðrar hörmungar hafa þó sett strik í reikninginn á síðustu misserum.AFP
Mynd 10 af 46Katrín hertogaynja af Cambridge og eiginkona Vilhjálms Bretaprins fyrir utan mosku í Kuala Lumpur. Parið fór í mikið ferðalag í byrjun september í tilefni af 60 ára valdaafmæli Elísabetar Bretlandsdrottningar.AFP
Mynd 11 af 46Kína og Suður-Kórea urðu illa úti vegna flóða og veðurofsa í lok ágúst. Margir týndu lífi og eyðileggingin var umfangsmikil.AFP
Mynd 12 af 46Kona heldur utan um dóttur sína á meðan sprengjum sýrlenska flughersins rignir í nágrenninu. Borgin Aleppo og íbúar hennar hafa þurft að þola stöðugar loftárásir mánuðum saman.AFP
Mynd 13 af 46Vilhjálmur Bretaprins og eiginnkona hans Katrín á Solomon-eyjum í september. Parið ferðaðist víða, m.a. til fyrrverandi nýlenda breska konungsveldisins í tilefni af 60 ára valdatíð Elísabetar drottningar.AFP
Mynd 14 af 46Lögreglumaður býst við öllu er hann sækir barn sem er langt leiddur fíkniefnanotandi á götum Rio de Janeiro. Borgaryfirvöld reyna nú að „hreinsa upp göturnar“ en árið 2016 verða Ólympíuleikarnir haldnir þar í borg.AFP
Mynd 15 af 46Barack Obama forseti Bandaríkjanna fær sér franska kartöflu á skyndibitastað í Míamí í Flórída í september. Kosningabaráttan var löng og ströng.AFP
Mynd 16 af 46Kínverjinn Zheng Tao fagnar heimsmeti sínu í 100 metra baksundi á Ólympíumóti fatlaðra í London í sumar.AFP
Mynd 17 af 46Norðurkóreski leiðtoginn Kim Jong-Un klappar við hátíðarhöld vegna aldarafmælis afa síns, Kim Il-Sung í apríl. Við þetta tilefni hélt Kim Jong-Un sína fyrstu opinberu ræðu.AFP
Mynd 18 af 46Kínverski andófsmaðurinn Chen Guangcheng sem verið hafði í stofufangelsi í heimalandinu, fékk hæli í Bandaríkjunum.AFP
Mynd 19 af 46Barn úr Roma-samfélaginu yfirgefur búðir eftir að franska lögreglan rak fólkið af svæðinu í lok ágúst. Talið er að um 15 þúsund manns úr Roma-samfélaginu búi í ólöglegum búðum í Frakklandi í óþökk nágranna og lögreglu.AFP
Mynd 20 af 46Hermenn úr bandarískri herdeild sem starfar sem hluti af alþjóðaherliði NATO í Afganistan, vernda særðan félaga á meðan ryk og reykur þyrlast upp umhverfis þá. Nú hefur stríðið í Afganistan staðið í 11 ár. 2.135 bandarískir hermenn hafa fallið.AFP
Mynd 21 af 46Anders Behring Breivik var dæmdur til fangelsisvistar fyrir að drepa 77 í Ósló og Útey. Breivik var dæmdur sakhæfur.AFP
Mynd 22 af 46Suðurkóreska poppstjarnan Psy sló heldur betur í gegn á árinu. Myndband við lag hans Gangnam Style er það vinsælasta á YouTube frá upphafi.AFP
Mynd 23 af 46Fjölbragðaglímuhópurinn Lucha Va Voom sýnir í leikhúsi í Los Angeles í maí. Hópurinn er frá Mexíkó.AFP
Mynd 24 af 46Rússneski forsetinn Vladimír Pútín kemur inn í forsetahöllina í Kreml við innsetningarathöfn í maí. Pútín var kjörinn forseti landsins í þriðja sinn - en þó með hléi.AFP
Mynd 25 af 46Barack Obama faðmar eiginkonuna Michelle í Iowa. Þessi mynd birtist á Twitter-þræði forsetans, þegar ljóst var að hann hefði verið endurkjörinn forseti Bandaríkjanna. AFP
Mynd 26 af 46Hinn umdeildi fyrrverandi forseti Egyptalands, Hosni Mubarak, í dómssal í sumar. Hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir aðild sína á morðum á mótmælendum í uppreisn í landinu.AFP
Mynd 27 af 46Elísabet Bretlandsdrottning ásamt Játvarði jarli af Wessex, brosir til þegna sinna af svölum hallarinnar 2. júní. Í ár voru sextíu ár frá því að hún varð drottning Bretlands. AFP
Mynd 28 af 46Konur kyssast við mótmæli í Frakklandi. Frumvarp um hjónabönd og ættleiðingar samkynhneigðra voru tekin fyrir á franska þinginu í október.AFP
Mynd 29 af 46Stuðningsmenn bresku konungsfjölskyldunnar sitja fyrir utan Buckinghamhöll í London og bíða eftir því að tónleikar í tilefni af 60 ára valdaafmæli Elísabetar drottningar hefjist.AFP
Mynd 30 af 46Hræ af heimsins best varðveitta loðfíl til sýnis í Hong Kong í apríl. Hræið er 42 þúsund ára gamalt og fannst af hirðingja sem var á ferð um svæðið með hrendýrahjörð sína í Rússlandi árið 2007.AFP
Mynd 31 af 46Karl prins af Wales kyssir á hönd móður sinnar, Elísabetar, á tónleikum í við Buckinghamhöll í júní. Þá voru liðin 60 ár frá því Elísabet varð drottning. AFP
Mynd 32 af 46Þegnar Norður-Kóreu votta tveimur myndum af leiðtogum sínum virðingu sína. Á myndunum eru Kim Il-Sung (t.v.) og barn hans Kim Jong-Il. Í apríl voru liðin 100 ár frá fæðingu Kim Il-Sung.AFP
Mynd 33 af 46Ólympíuleikarnir í London þóttu velheppnaðir.AFP
Mynd 34 af 46 Usain Bolt frá Jamaíka kom, sá og sigraði á Olympíuleikunum í London.
AFP
Mynd 35 af 46Skemmtiferðaskipið Costa Concordia strandaði við eyjuna Giglio í janúar. 32 létust er skipið strandaði. Skipstjórinn var dreginn fyrir dómstóla. Skipið er helmingi stærra en Titanic og um borð voru 4.229 manns.AFP
Mynd 36 af 46Eldgleypir spúir eldi á hátíð í Manila í tilefni af upphafi nýs árs samkvæmt kínverska tímatalinu.AFP
Mynd 37 af 46Novak Djokovic frá Serbíu fagnar sigri sínum á andstæðingnum Rafael Nadal frá Spáni á opna ástralska tennismótinu í janúar.AFP
Mynd 38 af 46Í febrúar fékk forsetaframbjóðandi sósíalista, Francois Hollande, hveiti yfir sig. Hollande var kjörinn forseti Frakklands nokkrum vikum síðar.AFP
Mynd 39 af 46Þúsundir íbúa Austur-Kongó flýja frá Goma. Mikil átök hafa geisað í landinu og flóttamannabúðum verið komið upp.AFP
Mynd 40 af 46Óeirðarlögreglan í eldhafi við mótmæli í Aþenu í febrúar. Gríska lögreglan hefur staðið í ströngu í ár vegna ítrekaðra mótmæla. Grikkir hafa ekki tekið niðurskurði hins opinbera þegjandi.AFP
Mynd 41 af 46Franski forsetinn François Hollande og kona hans Valerie Trierweiler dvöldu í Bregancon Fort í suðausturhluta Frakklands í sumarfrí sínu í ágúst.AFP
Mynd 42 af 46Breska tónlistarkonan Adele með sex verðlaun sem hún hlaut á Grammy-hátíðinni í Los Angeles í febrúar.AFP
Mynd 43 af 46Samba dönsuð í Sao Paulo í febrúar.AFP
Mynd 44 af 46Afgönsk ungmenni henda steinum að bandarískum hermönnum við hlið Bagram-herstöðvarinnar.AFP
Mynd 45 af 46Vladimír Pútín sóttist aftur eftir forsetaembættinu – hér er hann á kosningafundi í febrúar. Pútín sigraði í kosningunum sem fram fóru í byrjun mars.AFP
Mynd 46 af 46Meryl Streep og Jean Dujardin hlutu óskarsverðlaun fyrir bestan leik í aðalhlutverki. Hátíðin fór að vanda fram í Hollywood í febrúar.AFP
Katrín hertogaynja í Kuala Lumpur í september. Hún var mikið í fréttum á árinu.
AFP
Blóðug átök, flóð, fellibyljir og forsetakosningar. Árið 2012 hefur verið viðburðaríkt. Þetta er árið sem breska konungsfjölskyldan var í kastljósinu vegna margra og ólíkra atvika. Elísabet drottning fagnaði 60 ára valdaafmæli, Filippus prins veiktist, nektarmyndir birtust af barnabarninu Harry og síðar sjálfri hertogaynjunni, Katrínu. Hún og eiginmaðurinn Vilhjálmur ferðuðust um fyrrverandi nýlendur og sambandsríki í tilefni af valdaafmæli drottningar. Svo var greint frá því að Katrín væri ólétt. Meðgangan hefur hins vegar tekið á hertogaynjuna.
Með því að smella á renninginn hér að ofan má sjá ítarlega myndasyrpu frá helstu viðburðum ársins 2012.
Þetta var líka ár sviptinga á pólitíska sviðinu. Forsetaskipti urðu í Frakklandi. Forsetakosningar í Bandaríkjunum. Leiðtogaskipti í Kína. Ólga í stjórnmálunum í Grikklandi og Sýrlandi.
Á sama tíma og ríkisstjórnir hafa boðað niðurskurð hefur atvinnulausum í Evrópu fjölgað sem og víðar í heiminum. Kreppan beit á mörgum evrópskum heimilum þetta árið og hefur fjölgað um milljónir í hópi fátækra Evrópubúa. Skiptir þar engu hvort viðkomandi er barn að aldri eða eldri borgari, kreppan eirir engri kynslóð.
Uppreisnin í Sýrlandi hefur á þessu ári breyst úr kröftugum kröfugöngum á götum úti í blóðuga styrjöld. Áhrifa vopnaðra íslamista gætir - þvert á hugsjónir arabíska vorsins.