Ellefu ára gamall drengur lést úr svínaflensu í Noregi á fimmtudag og annað barn hefur legið þungt haldið á sjúkrahúsi frá jólum vegna svínaflensu.
Heilbrigðisyfirvöld í Noregi fylgjast grannt með en meðal annars er skoðað hvort um nýtt afbrigði veikinnar sé að ræða. Auk þeirra hafa tveir fullorðnir fengið meðferð við svínaflensu í Noregi en fjórmenningarnir eru frá sama svæði í Noregi, Østland.
Árið 2009 létust 32 úr svínaflensu í Noregi. Þrátt fyrir að hundruð þúsunda Norðmanna hafi verið bólusett gegn svínaflensu hefur það ekki dugað til og er svínaflensa nú orðin árstíðarbundin flensa í Noregi, samkvæmt frétt VG.