Tuttugu hafa nú greinst með svínaflensu á háskólasjúkrahúsinu í Akershus í Noregi. Búist er við því að fleiri greinist á næstu dögum. Alls hefur 181 sjúklingur fengið meðhöndlun á sjúkrahúsinu vegna svínaflensu frá 1. nóvember.
Þetta segir Geir Lindhjelm, talsmaður sjúkrahússins, í samtali við norska dagblaðið Aftenposten í dag.
Af þeim sem greinst hafa liggja fimm á gjörgæslu vegna svínaflensunnar og þar af er eitt barn.
Lýðheilsustofnun Noregs rannsakar nú hvort sú svínaflensa, sem nú er að greinast, sé annarrar tegundar en sú sem reið yfir heimsbyggðina árið 2009. Þá létust 32 Norðmenn af völdum sjúkdómsins. Ellefu ára gamall drengur lést úr svínaflensu síðastliðinn fimmtudag á Ríkissjúkrahúsinu í Ósló. Þá hafa fjölmörg tilvik um flensuna verið tilkynnt víða um Evrópu.