Kennsla hefst í Sandy Hook á morgun

„Sameinuð erum við sterk “ stendur á borða sem strengdur …
„Sameinuð erum við sterk “ stendur á borða sem strengdur hefur verið í bænum Newtown í Connecticut. AFP

Kennsla mun hefjast að nýju á morgun í Sandy Hook grunnskólanum í Newtown í Connecticut, en skólastarf hefur legið þar niðri síðan skotárás var gerð þar þann 14. desember síðastliðinn. 

Reist hefur verið ný skólabygging í nágrannabænum Monroe og er byggingin eftirlíking hinnar. Á vefsíðu skólans skrifar Donna Page, sem er staðgengill skólastjóra, að nýja byggingin sé algerlega örugg. Þar segir einnig að foreldrum sé velkomið að vera með börnum sínum í skólanum, en mörg þeirra urðu vitni að skelfilegu blóðbaðinu þegar hinn tvítugi Adam Lanza skaut 20 ung börn og sex starfsmenn skólans.

Lanza var lagður til hinstu hvílu um síðustu helgi, en þá fyrst fékk faðir hans lík hans afhent frá yfirvöldum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka