Óttast að löndum verði skipt upp

Mesta ógnin sem stafar að Austurlöndum nær er að átök og sundrung verði til þess að ríkjunum verði skipt upp í fjölda smáþjóða. Sérstaklega er hætt við þessu í Sýrlandi. Þetta segir Hassan Nasrallah, leiðtogi Hezbollah-samtakanna í Líbanon. 

„Við í Líbanon og allur þessi heimshluti förum nú í gegnum skeið sem er bæði hættulegt og mikilvægt, andrúmsloftið einkennist af erjum,“ sagði Nasrallah í ávarpi sem sent var út í sjónvarpi í dag. 

„Í öllum heimshlutanum, frá Jemen til Íraks til Sýrlands, jafnvel í Egyptalandi, Líbíu og Sádi-Arabíu; alls staðar er ósamkomulag. Mesta hættan sem steðjar að þessum heimshluta er að ríkjunum verði skipt upp; að hér verði fjöldi smáríkja.“

Nasrallah segir að þeir sem hafi viðurkennt uppreisnarmenn í Sýrlandi sem valdhafa beri ábyrgð á miklum straumi flóttamanna frá landinu. Til dæmis hafa um 125.000 Sýrlendingar leitað hælis í Líbanon. 

„Líbanon getur ekki borið þann kostnað sem hlýst af aðgerðaleysi,“ sagði Nasrallah. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka