Karlar mega ekki skipta á börnunum

Úr leikskólastarfi.
Úr leikskólastarfi. Árni Sæberg

Algengt er að nýir leikskólar í Danmörku séu innréttaðir með glerveggjum til að vernda karlkyns starfsmenn gegn orðrómi um að þeir sæki í slík störf til að geta misþyrmt börnum á kynferðislegan hátt. Þeim eru settar ýmsar skorður í starfi, til dæmis er þeim stundum meinað að skipta á börnum og hugga þau.

Á síðustu fimm árum hafa á milli 50 og 100 danskir leikskólakennarar verið kærðir fyrir að hafa áreitt börn kynferðislega innan veggja leikskólans. Málin hafa verið rannsökuð, fæst þeirra hafa leitt til ákæru og einn hefur fengið dóm.

Þeir sem kærðir eru fyrir slíkt að tilefnislausu fara oft í langt veikindaleyfi í kjölfarið, þeim er oft vikið frá störfum og eru brennimerktir fyrir lífstíð. „Flestir verða að skipta um starfsvettvang,“ er haft eftir Henning Pedersen, formanni Félags leikskólakennara, á vefsíðu Jyllands-Posten. Hann segir að langoftast eigi kærurnar ekki við nein rök að styðjast.

Margir leikskólar hafa á undanförnum árum sett ýmsar reglur um hvað karlar á leikskólum mega og mega ekki. Til dæmis mega þeir víðast hvar ekki skipta um bleiur á börnunum eða spila með þeim leiki á borð við fótbolta, án þess að kvenkyns starfsmaður sé viðstaddur.

„Því miður hefur skapast menning þar sem menn liggja undir stanslausum grun,“ segir leikskólastjóri í Árósum í samtali við Jyllands-Posten. „Að mínu mati erum við farin að ganga allt of langt þegar karlkyns leikskólakennari má ekki hugga barn eða halda á því í fanginu án þess að hann sé grunaður um að hafa eitthvað misjafnt í hyggju.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert