Lögreglumenn og blaðamaður handteknir

New Scotland Yard
New Scotland Yard AFP

Lögreglan í Lundúnum handtók þrjá í morgun í tengslum við símahlerunarmálið sem tengist fjölmiðlum í eigu Ruperts Murdochs. Um er að ræða tvo lögreglumenn og blaðamann hjá The Sun.

Samkvæmt upplýsingum frá Scotland Yard voru mennirnir handteknir undir morgun á heimilum sínum en handtökurnar eru liður í aðgerðinni Elveden, sem var sett í gang í kjölfar símahlerunarmála tengdra sunnudagsblaðinu News of the World. Brotin sem þremenningarnir eru grunaðir um voru framin á árunum 2004 og 2011.

Greint hefur verið frá því að blaðamaðurinn heiti Anthony France en hann fjallar um sakamál á síðum The Sun. Talið er að hann sé 22. blaðamaðurinn sem starfar fyrir The Sun sem hefur verið handtekinn í tengslum við rannsóknina.

Annar lögreglumannanna er háttsettur innan lögreglunnar sem kemur meðal annars að gæslu konungsfjölskyldunnar, flugvallaröryggi og vörnum gegn hryðjuverkum. Hinn starfar hjá deild lögreglunnar sem rannsakar alvarlega glæpi í Lundúnaborg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert