„Ein allsherjar skröksaga“

Kona í bandarísksu höfuðborginni Washington fylgist með samtali Armstrong og …
Kona í bandarísksu höfuðborginni Washington fylgist með samtali Armstrong og Winfrey í tölvu sinni. mbl.is/afp

Viðbrögðin við játningum bandaríska hjólreiðagarpsins Lance Armstrong eru á ýmsa vegu. Leiðtogi bandarísku lyfjaeftirlitsnefndarinnar (USADA) vill að hann gefi allsherjar vitnisburð um lyfjanotkun sína og allt í kringum hana undir eið. Alþjóða hjólreiðasambandið (UCI) sagði játninguna auðvelda því baráttuna gegn lyfjanotkun keppnismanna. Rétt fyrir birtingu viðtalsins í sjónvarpi krafði Alþjóða ólympíunefndin Armstrong  um bronsverðlaunin sem hann vann á leikunum í Sydney árið 2000.

Víst þykir að Armstrong nýtur ekki lengur aðdáunar margra sem lagt hafa trúnað á staðhæfingar hans um að hann hefði aldrei svindlað. Með játningunum og afsökunarbeiðni segist hann vonast til að geta með tíð og tíma endurheimt traust og trúnað þess fólks sem hann hefur blekkt.

Í viðtali á sjónvarpsstöð Ophra Winfrey sem barst um alla heimsbyggðina í gærkvöldi sneri Armstrong við blaðinu eftir margra ára afneitanir og viðurkenndi að hafa verið undir áhrifum afreksaukandi lyfja í öll sjö skiptin sem hann reið til sigurs í Frakklandsreiðinni, Tour de France.  „Ég lít á þetta sem allsherjar skröksögu sem ég endurtók margsinnis,“ sagði Armstrong er hann leit yfir farinn veg. „Ég ákvað sjálfur að nota lyf, það voru  mistök af minni hálfu og hingað er ég kominn til að biðjast afsökunar á þeim“.

USADA birti í fyrrahaust 1.000 síðna skýrslu um „fullkomnasta, snjallasta og árangursríkasta lyfjaneysluprógramm sem íþróttirnar hafa nokkru sinni séð. Armstrong fékk tækifæri til andmæla niðurstöðum skýrslunnar áður en hann var sviptur sigri í Frakklandsreiðinni og allur árangur hans frá 1998 strikaður út. Það lét hann eiga sig og sagðist langþreyttur eftir langa glímu við ásakanir af því tagi. Hann hafði alltaf neitað lyfjanotkun harðlega.

Á nokkrum sekúndum í samtalinu varð  gjörbreyting þar á er Winfrey, vinsælasta sjónvarpskona Bandaríkjanna heimtaði að hann svaraði nokkrum spurningum sinna með já eða nei.  

„Tókstu einhvern tíma óleyfileg efni til að bæta getu þína á hjólinu?“

„Já“

„Var eitt þessara efna EPO?“

„Já“

„Notaðir þú önnur bannefni“

„Já“

Armstrong játaði að hafa notað hið blóðaukandi lyf Erythropoietin (EP), hormónalyfið testosteron, steraefnið cortisone og vaxtarhormóna ásamt því að hafa stundað sjálfsígjöf blóðs, sem felst í því, að dregið er blóð úr íþróttamanni og dælt aftur inn í æð rétt fyrir keppni, eftir að líkaminn hefur framleitt sjálfur það magn sem upphaflega var tekið úr. Fyrir tilstilli umframblóðsins verður súrefnisburðargeta blóðvökvans meiri og þar með von um betri árangur.

USADA sagði hjólreiðagarpinn fyrrverandi hafa verið lykilmaður í mesta lyfjanotkunarprógrammi íþróttasögunnar. Það sagði Armstrong ofsagt; áætlun hans hafi einungis verið „kæn“ og hófsöm og ætíð gengið útfrá lágmarks áhættu. Hann kvaðst aldrei hafa óttast að vera gómaður. Og sagði að það hefði verið forsenda sigurs í Frakklandsreiðinni, sem hann vann 1999 til 2005, að neyta afreksaukandi lyfja. Bætti svo við að sér hefði ekki fundist hann vera að svindla því með lyfjanotkuninni hafi hann einungis staðið jafnfætis keppinautunum.

Dró enga niður með sér

Armstrong sagði að enginn annar en hann sjálfur bæri ábyrgð á lyfjanotkuninni og þeirri skömm sem henni fylgdi. Hann öðlaðist ekki einvörðungu frægð fyrir getu sína á hjólhesti heldur hlaut enn meiri frægð með því að sigrast á lífshættulegu krabbameini. Athyglisvert var í viðtalinu að Armstrong sagði þá lífsreynslu hafa breytt sér. Upp úr því stríði hefði hann staðið með það hugarfar að vopni, að sigur skyldu hann á öllu vinna hvað sem það kostaði.

Í viðtalinu sagðist Armstrong reiðubúinn að ganga til samstarfs við þau samtök sem fyrir úttekt á lyfjanotkun í íþróttum stæðu. Hermt er að með því vænti hann þess að keppnisbann hans verði mildað svo hann geti keppt aftur í íþróttum. Víst er að USADA mun ekki vísa honum frá knúi hann þar á dyr en eftir er að koma í ljós hversu samningafús stofnunin er.

Armstrong var auðmjúkur og fullur iðrunar í játningum. Og ef til vill hefur hann með þeim markað skil í einhverjum stærstu íþróttasvikum sögunnar. Hann er óneitanlega eitt stærsta nafn hjólreiðasögunnar og þótt játningin hafi í sjálfu sér lítið annað gert en staðfesta það sem hann hefur verið lengi grunaður um hefur mál hans að mati málsmetandi manna valdið atvinnuhjólreiðunum miklum skaða.

Lengi hafa öll spjót staðið á Armstrong, meðal annars frá mörgum fyrrverandi liðsfélögum sem vitnuðu gegn honum hin síðari misseri. Í samtalinu láði hann þeim hvergi, neitaði ítrekað að gera þá meðábyrga fyrir sinni lyfjanotkun. Engu að síður þykja játningar hans endurspegla að um langan aldur hafi lyfjanotkun grasserað í hjólreiðunum og keppendur ekki þurft að óttast stórlega að verða gripnir á prófum.

Gjörbreytt ástand

Öldin er allt önnur í hjólreiðunum í dag og jafnvel harðar barist gegn lyfjanotkun í þeirri íþrótt en nokkurri annarri. Til að mynda verður hver einasti atvinnumaður að gangast undir próf til að skilgreina líffræðileg fyrirbæri líkama hans. Út úr því kemur nokkurs konar „vegabréf“ blóðmassa keppnismannsins. Og séu síðan niðurstöður á lyfjaprófum ekki í samræmi við þann passa kallar viðkomandi yfir sig bann. Armstrong sagði sjálfur að ástandið væri annað og betra í dag og þakkaði það lyfjaprófum utan keppni og blóðpassanum. En tjónið sem íþróttinni hefur verið unnið á síðasta hálfa öðrum áratugnum eða ristir svo djúpt að talið er að a.m.k. álíka langan tíma muni taka fyrir hjólreiðarnar að komast út úr þeim hneykslismálum.

Frá bæjardyrum Alþjóða hjólreiðasambandsins kom ekkert óvænt út úr samtalinu sem tjóni gæti valdið fyrir það. Armstrong sagðist aldrei hafa verið vinur foringja þess og sakaði þá um að hafa tælt sig til að gefa um 100.000 dollara til baráttunnar gegn lyfjanotkun eftir að á prófi árið 2001 kom fram grunsamlegt sýni úr honum er gaf til kynna notkun blóðaukandi lyfsins EPO. Hann vísaði því á bug að þar hefði hann reynt að kaupa sér frið.

Vel æfður til samtalsins

Samtalið varpaði engu ljósi á hvers vegna UCI gat látið Armstrong og félaga komast upp með lyfjanotkun svo lengi eftir að víðtækar grunsemdir komu fram um að árangur hans væri ekki með góðu fenginn. Þáverandi forseti sambandsins og núverandi heiðursforseti, Hein Verbruggen, var sagður náinn vinur Armstrong en á hann minntist hann ekki í samtalinu. Víst þykir að eftirmaður Verbruggen, Írinn Pat McQuaid, og samverkamenn í höfuðstöðvum UCI í Lausanne í Sviss hafi andað léttar er þeir mættu til vinnu í morgun. Fagnaði sambandið meir að segja að Armstrong skyldi hafa „sagt sannleikann og játað“ og sagði samtalið hafa staðfest að UCI hefði ekki verið aðili að „samsæri eða leynimakki“.

Vart getur annað talist, en að samtalið hafi verið niðurlægjandi fyrir Armstrong þótt auðmýkt og iðrun hafi sýnt. Hann þótti samt greinilega koma afar vel undirbúinn til leiks og æft sig undir þáttinn af álíka kostgæfni og fyrir kappreiðar á hjóli sínu. Fyrir þennan mann, sem klofaði yfir keppinautana í áratug eða svo hlýtur það að hafa verið óskemmtilegt að þurfa að viðurkenna, að það hafi allt verið lygi.

Spurningin er núna hvað takið við hjá Armstrong. Hann sagðist í samtalinu vilja hefja keppni á ný, að þessu sinni í þríþraut sem hann hefur fengist við í seinni tíð. Einhver bið gæti orðið á því vegna lífstíðarbannsins fyrrnefnda. Á hann á hættu að gömul mál, sem látin voru falla niður vegna sönnunarskorts verði opnuð á ný og hann ákærður fyrir meinsæri, sem hefur í för með sér langa fangelsisvist?  Saksóknarar sem þar við sögu kynnu að koma hafa ekkert viljað tjá sig um játningarnar. Og þar sem hann vildi með engu móti draga aðra niður með sér, hvorki keppendur né forystumenn gæti virst sem svo að íþróttayfirvöld hafi lítinn áhuga á að ganga til samninga um styttingu keppnisbanns. USADA, sem stimplaði Armstrong „raðsvindlara“ í úrskurðinum um keppnisbannið, þarf líklega eitthvað bitastæðara en fékkst úr úr samtalinu til að réttlæta styttingu keppnisútskúfunar hans.

Reynir að afeitra ímynd sína

Litlar skýringar á u-beygju sinni gaf Armstrong í samtalinu, aðrar en þær að honum stendur hugur til að keppa aftur í íþróttum. Eftir allt málaþrefið með sæg lögfræðinga í þjónustu sinni gegn ásökunum um lyfjanotkun og skaðabótamál á hendur þeim sem pikkað hafa í hann í gegnum árin er viðsnúningurinn algjör.  En fyrsta daginn eftir viðtalið mun hann nota til að hefjast handa við að reisa orðspor sitt við og ná sáttum við allt og alla. Sagðist Armstrong til að mynda verða fyrsti maðurinn sem myndi knýja á dyr sannleiks- og sáttanefndar ef slík yrði sett á laggir. Ljóst er að viðtalið hafi verið fyrsta skref hans í að reyna að afeitra helsýkta ímynd sína. En til að geta gert sér von um uppreisn æru frammi fyrir yfirvaldi íþróttanna er talið að hann þurfi að vera öllu gjöfulli á upplýsingar um lyfjanotkunina en í samtalinu við Ophra Winfrey.

agas@mbl.is

Fylgst var með samtali Armstrong og Winfrey um heim allan, …
Fylgst var með samtali Armstrong og Winfrey um heim allan, hér horfir gestur á krá í Los Angeles á. mbl.is/afp
Armstrong á efsta þrepi verðlaunapallsins í Tour de France 1999-2005.
Armstrong á efsta þrepi verðlaunapallsins í Tour de France 1999-2005. mbl.is/afp
Armstrong og Verbruggen þáverandi forseti UCI í París 2003.
Armstrong og Verbruggen þáverandi forseti UCI í París 2003. mbl.is/afp
Armstrong situr fyrir svörum í samtalinu hjá Winfrey.
Armstrong situr fyrir svörum í samtalinu hjá Winfrey. mbl.is/afp
Bandarísk húsmóðir fylgist með samtali Armstrong og Winfrey.
Bandarísk húsmóðir fylgist með samtali Armstrong og Winfrey. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert