„Við blessum þessa aðgerð“

Eineygði eyðimerkurrefurinn Mokhtar Belmokhtar.
Eineygði eyðimerkurrefurinn Mokhtar Belmokhtar. AFP

Árásin á gasvinnslusvæðið í Alsír var skipulögð af al-Qaeda. Þetta segir Mokhtar Belmokhtar á myndskeiði sem birst hefur á vefsíðu í Mauritaníu.

„Við í Al Qaeda lýsum því yfir að við blessum þessa aðgerð,“ segir Belmokhtar á myndskeiðinu. „Við erum tilbúnir til samningaviðræðna við Vesturlönd og ríkisstjórn Alsírs ef sprengjuárásir á múslima í Malí verða stöðvaðar.“

Ekki er vitað hvar Belmokhtar heldur sig, en ljóst er að mikil áhersla verður lögð á að ná honum. Ekki er ljóst hversu margir féllu í gíslatökunni. Stjórnvöld í Alsír sögðu í gær að 23 hefðu fallið, en í dag fundu alsírskir hermenn 25 lík til viðbótar á gasvinnslusvæðinu.

Liðsmenn al-Qaeda hafa komið sér fyrir í Malí og hafa síðustu mánuði sótt til suðurs. Talin var hætta á að þeir myndu ná stærstum hluta landsins á sitt vald. Vesturlönd óttuðust að Malí yrði þá hryðjuverkaland eins og Afganistan var í kringum árið 2000. Til að bregðast við þessu hafa Frakkar og fleiri lönd sent hermenn til Malí. Staða Belmokhtar og annarra liðsmanna al-Qaeda er því að veikjast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert