Fánar voru dregnir í hálfa stöng fyrir framan höfuðstöðvar norska ríkisolíufélagsins Statoil í Stavanger þegar þeir Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, og olíumálaráðherra landsins, Ola Borten Moe, komu þangað til fundar við starfsmenn í dag. Óttast er um afdrif fimm starfsmanna Statoil, sem teknir voru sem gíslar í gasvinnslunni í Alsír.
Nú hefur verið staðfest að 48 gíslar létu þar lífið, þar af voru 37 útlendingar frá alls átta þjóðlöndum.
Ástæða gíslatökunnar er íhlutun Frakka í Afríkuríkinu Malí, en þangað hafa Frakkar sent her til aðstoðar stjórnarher landsins, en herskáir íslamistar hafa hertekið hluta landsins.
„Ég er hingað kominn til að hitta starfsfólkið, til að sýna þeim samúð mína og samhygð vegna þess sem það hefur gengið í gegnum,“ sagði Stoltenberg. „En ég er hérna vegna allrar þjóðarinnar og ég finn sárt til með ykkur öllum.“
„Þegar harmleikir gerast bregst Noregur við eins og ein stór fjölskylda,“ sagði Stoltenberg.
Flaggað verður í hálfa stöng við allar starfsstöðvar Statoil næstu vikuna.
Mörg þúsund starfsmenn Statoil voru samankomnir í höfuðstöðvunum í dag. Helge Lund, forstjóri Statoil, sagðist vona það besta, en óttast það versta. „Kæra samstarfsfólk. Þetta eru erfiðir tímar. Fimm samstarfsmanna okkar er saknað eftir hryðjuverkaárásina og við höfum af þeim þungar áhyggjur,“ sagði Lund.
„Þeir sem lifðu árásina af urðu vitni að ofbeldisverkum sem enginn á að þurfa að horfa upp á. Þetta er versta árásin á Statoil fyrr og síðar,“ sagði Lund er hann rifjaði upp nokkur áhlaup sem gerð hafa verið á starfsstöðvar fyrirtækisins víða um heim á undanförnum árum.
Hann sagðist ekki hafa fulla yfirsýn yfir það sem gerst hefði. „Tólf af starfsmönnum okkar eru komnir í öruggt skjól og eru komnir heim. En eftir því sem við best vitum er fimm enn saknað. Við munum gera allt sem við getum til að finna þá.“
Hann sagði mikilvægt að láta árásir af þessu tagi ekki hafa áhrif á starfsemi Statoil. „Við berum ábyrgð á því að halda áfram rekstri fyrirtækisins. Við megum ekki, og munum ekki, láta árás hryðjuverkamanna stjórna því.“ Stoltenberg tók í sama streng og sagði að ef tekin yrði sú ákvörðun að draga úr starfsemi Statoil á þessum slóðum, þá jafngilti það eftirgjöf til hryðjuverkamannanna.
Spurður að því hvort tryggja þyrfti öryggi starfsmanna enn frekar sagði Lund að farið yrði yfir allar öryggisreglur. „Það skiptir ekki bara máli fyrir Statoil, heldur líka fyrir Noreg og allan olíu- og gasiðnaðinn.“
Hann var líka spurður að því hvernig leitinni að Norðmönnunum fimm væri nú háttað og sagði að verið væri að fínkemba svæðið sem olíustarfsemin fer fram á, einnig væri leitað í eyðimörk í grennd og á öllum sjúkrahúsum.
Komið hefur verið upp miðstöð aðstandenda þeirra sem saknað er í Bergen og heimsóttu þau Sonja Noregsdrottning og Hákon krónprins, sonur hennar, stöðina í morgun.