Fox-fréttastöðin segir frá því að nokkrir hafi orðið fyrir skoti og einn sé í varðhaldi eftir skotárás í háskóla í Texas. Sérsveit lögreglunnar er komin á staðinn og leitar annars skotmanns.
Þrír voru fluttir á brott í sjúkrabíl skömmu eftir atvikið. Enn er óljóst hvernig málið upphófst en svo virðist sem það eigi upptök sín í rifrildi nærri bókasafni skólans. Starfsfólki og nemendum inni í skólanum hefur verið skipað að læsa sig inni í kennslustofum.
Hluti nemenda var leiddur út úr skólanum með hendur á höfði en talið er að enn séu fjölmargir inni í skólanum.
Við Lone Star College nema 28 þúsund manns.
Sjá einnig skotárás í Texas
Uppfært
Á CNN er staðfest að annars skotmanns sé leitað. Þar segir að þrír hafi særst auk þess sem annar skotmannanna tveggja sé særður. Hinn skotmaðurinn er talinn hafa yfirgefið skólasvæðið og sé á flótta undan laganna vörðum.
Svo virðist sem um hafi verið að ræða rifrildi tveggja manna og hafi þeir báðir verið vopnum búnir. Mennirnir hafi fyrst og fremst beint skotvopnum sínum hvor að öðrum.
Jed Young, talsmaður skólans, staðfesti að um annan skotmann væri að ræða en jafnframt að fjórði maður hefði fengið hjartaáfall.
Nemandi í skólanum segir að sex skotum hafi verið hleypt af.