SÞ varfærnar gagnvart íhlutun í Malí

Ban Ki-moon ávarpar öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.
Ban Ki-moon ávarpar öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. AFP

Ban Ki-moon aðalritari Sameinuðu þjóðanna segir að beinn stuðningur SÞ við hernaðaraðgerðir gegn skæruliðum íslamista í Malí gætu stofnað starfsmönnum SÞ í hættu vegna hugsanlegra hefndaraðgerða.

Sameinuðu þjóðirnar eru undir vaxandi þrýstingi um að styðja fjárhagslega aðgerðir alþjóðasamfélagsins í Malí. Á blaðamannafundi í dag sagði Ban að hann hefði gert öryggisráði SÞ áhættuna gagnvart starfsfólki sínu ljósa.

„Um það er enginn vafi að við erum staðföst í skuldbindingu okkar gagnvart því að aðstoða Malí á neyðarstundu. Engu að síður verður hjálpin að vera í samræmi við viðmið Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal mannréttindastefnuna,“ sagði Ban í dag.

„Beinn stuðningur við hernaðaraðgerðir myndi stefna borgaralegum starfsmönnum okkar á svæðinu í hættu. Ég tek þessu því mjög alvarlega.“ Sagði hann alþjóðasamfélagið verða að finna pólitíska lausn á deilunni.

Sameinuðu þjóðirnar halda úti mannmörgum mannúðarverkefnum á Sahel svæðinu í Afríku bæði vegna átakanna í Malí en einnig vegna þurrka í nágrannalöndunum. Áætlað er að um 350.000 manns hafi flúið heimili sín í Malí vegna uppreisna íslamista þar. 

Lokaákvörðun um stuðning Sameinuðu þjóðanna við hernaðaraðgerðir í Malí verður tekin á vettvangi öryggisráðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert