Allen hreinsaður af hneykslismáli

Hershöfðinginn John Allen er tilnefndur af Hvíta húsinu sem æðsti …
Hershöfðinginn John Allen er tilnefndur af Hvíta húsinu sem æðsti yfirmaður herafla Nató í Evrópu. AFP

Hvíta húsið stendur við tilnefningu sína á hershöfðingjanum John Allen sem æðsta yfirmanns herafla Nató í Evrópu. Útnefningu Allen var frestað á meðan rannsökuð voru „óviðeigandi samskipti“ hans við unga konu sem tengdist framhjáhaldshneyksli yfirmanns CIA, David Petraeus.

Tilkynning var send frá Hvíta húsinu í dag um að tilnefning Allen standi í ljósi þess að hann hafi verið hreinsaður af ásökunum um að ítarleg samskipti hans við Jill Kelley, konu í Flórída, væru óviðeigandi fyrir mann í hans stöðu. Málið komst upp eftir að Kelley þessi kvartaði undan hótunarbréfum sem hún fékk send og reyndust vera frá Paulu Broadwell, ævisagnaritara og ástkonu Petraeus yfirmanns CIA.

Óprenthæft en þó ekki siðlaust

Í fyrstu fréttum frá málinu sagði að tölvusamskipti Allen og Kelley næmu allt að 30.000 blaðsíðum og á köflum væru samskiptin óviðeigandi eða daðurgjörn. Allen, sem tók við af Petraeus sem herforingi í Afganistan, beitti sér einnig til stuðnings tvíburasystur Kelley í harðri forsjárdeilu hennar við fyrrverandi eiginmann. Málið þykir, eins og gefur að skilja, hin mesta sápa.

Í Washington Post segir að komið hafi í ljós við rannsóknina að í reynd hafi aðeins nokkur hundruð tölvupóstar farið á milli Allen og Kelley og þeir hafi fyrst og fremst gengið út á athugasemdir um málefni líðandi stundar eða hrós frá hennar hálfu á framkomu Allen í sjónvarpsviðtölum.

„Sum skilaboðin eru ekki þess eðlis að þú myndir vilja birta þau á prenti í fjölskyldublaði, en það þýðir ekki að hann hafi brotið gegn reglum hersins með því að senda þau eða taka við þeim,“ hefur Washington Post eftir ónefndum heimildarmanni.

BBC hefur eftir talsmanni Allen að hann sé feginn því að vera laus undan ásökunum um að hafa brotið gegn siðareglum.

John Allen og David Petraeus taka á móti varnarmálaráðherranum Leon …
John Allen og David Petraeus taka á móti varnarmálaráðherranum Leon Panetta í Kabúl í Afganistan. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert