Einn mannræningjanna vann í gasvinnslunni

Einn íslömsku vígamannanna sem drepnir voru í áhlaupi alsírska hersins á In Amenas gasvinnslustöðina var áður bílstjóri hjá fyrirtækinu, samkvæmt upplýsingum AFP-fréttastofunnar úr sérsveitum alsírska hersins.

Maðurinn lét af störfum fyrir ári en ekki er vitað fyrir hvað af þeim þremur fyrirtækjum sem standa að gasvinnslunni hann starfaði.

Vígamennirnir tóku fjölmarga starfsmenn gasvinnslunnar í gíslingu á miðvikudag í síðsustu viku og daginn eftir gerði alsírski herinn áhlaup á gasvinnsluna í þeirri von að frelsa gíslanna. Átökunum lauk ekki fyrr en á sunnudag og á mánudag greindi forsætisráðherra Alsír, Abdelmalek Sellal, frá því að 37 útlendir gíslar og 29 mannræningjar hefðu látist. Enn er fimm útlendra gísla saknað og ekki hefur tekist að bera kennsl á sjö lík þar sem þau eru svo illa brunninn.  Sellal segir að flestir gíslanna hafi verið teknir af lífi með einni byssukúlu í höfuðið.

Mokhtar Belmokhtar, sem skipulagði árásina og er einnig þekkur sem eyðimerkurrefurinn, segir að árásin hafi hlotið blessun hryðjuverkasamtakanna Al Kaída. „Við í Al Kaída lýsum því yfir að við blessum þessa aðgerð,“ segir Belmokhtar á myndskeiði sem birtist um síðustu helgi.

Ekki er vitað hvar Belmokhtar heldur sig en CIA, leyniþjónusta Bandaríkjanna, hefur heitið því að hafa uppi á honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert