Stuðningsmenn fóstureyðinga og andstæðingar þeirra tóku þátt í samkomum víða um Bandaríkin í gær til að minnast þess að fjörutíu ár eru liðin frá því hæstiréttur úrskurðaði að konur eigi rétt á að eyða fóstri, mál Roe gegn Wade.
Samkvæmt niðurstöðu hæstaréttar Bandaríkjanna frá 22. janúar 1973 eiga konur rétt á að láta eyða fóstri þar til það hefur náð þeim þroska að geta lifað sjálfstæðu lífi utan líkama konunnar en það er áfangi sem fóstur ná yfirleitt á 22-24 viku.
Úrskurðurinn er enn gífurlega umdeildur í Bandaríkjunum og margoft hefur verið reynt að fá honum hnekkt eða þá að láta hæstarétt til þess að þrengja túlkun sína.
Ráðlagt að ljúga til um þungun
Í júní árið 1969 uppgötvaði Norma L. McCorvey, þá 21 árs einstæð tveggja barna móðir að hún væri þunguð af sínu þriðja barni. Hún vildi ekki eignast barnið enda buðu aðstæður hennar ekki upp á að hún gæti veitt barninu viðunandi heimilisaðstæður og var henni ráðlagt af vinum að gefa rangan vitnisburð um að henni hefði verið nauðgað. Því á þessum tíma var löglegt að fara í fóstureyðingu í Texasríki ef konunni hafði verið nauðgað eða ef þungunin ógnaði lífi hennar.
McCorvey ákvað að reyna þetta en áætlunin féll hins vegar um sjálfa sig þar sem ekki var um neina lögregluskýrslu að ræða um að henni hefði verið nauðgað. Hún ákvað því að fara á læknastofu sem framkvæmdi ólöglegar fóstureyðingar í Dalls í Texas en það rann einnig út í sandinn þar sem lögregla hafði lokað læknastofunni.
Árið 1970 ákváðu tveir lögmenn, Linda Coffee og Sarah Weddington, að taka mál McCorvey að sér og höfuðu mál fyrir hennar hönd (undir dulnefninu Jane Roe) fyrir héraðsdómi í Dallas gegn Texasríki. Auk Roe höfðaði læknirinn James Hallford mál en í máli þeirra kom fram gagnrýni á lög ríkisins um að fóstureyðingar væru ólöglegar nema þungunin væri tilkomin vegna nauðgunar eða að þungunin gæti ógnað lífi móður. Töldu þau að lögin væru ekki nægjanlega skýr og erfitt gæti verið að ákvarða hvort viðkomandi félli undir ákvæði laganna.
Málið endaði fyrir hæstarétti eftir að héraðsdómur dæmdi Roe í vil og byggði niðurstöðu sína á níundu grein bandarísku stjórnarskrárinnar.
Hæstiréttur úrskurðaði (sjö gegn tveimur) þann 22. janúar 1973 að breyta ætti lögum Texas en Henry Wade, saksóknari í Dallas fór með málið fyrir hönd Texasríkis. Niðurstaðan var því Roe (McCorvey) í vil en einungis að hluta lækninum í vil. Þann sama dag úrskurðaði hæstaréttur jafnframt að ríki gætu bannað fóstureyðingar á seinni hluta meðgöngu.
Sjö af hverjum tíu sáttir við ákvörðun hæstaréttar
Í nýrri skoðanakönnun sem NBC News/Wall Street Journal létu gera kemur fram að 54% Bandaríkjamanna eru hlynntur fóstureyðingum í flestum ef ekki öllum tilvikum. Er þetta í fyrsta skipti sem meirihluti bandarísku þjóðarinnar er fylgjandi fóstureyðingum í flestum ef ekki öllum tilvikum.
Sjö af hverjum tíu eru andsnúnir því að niðurstöðu Roe gegn Wade dómsins verði breytt, samkvæmt könnuninni.
Í gær og í dag er þessarar niðurstöðu hæstaréttar minnst víða í Bandaríkjunum, bæði af stuðningsmönnum og andstæðingum fóstureyðinga en enn er tekist á um þetta deilumál í bandarískum stjórnmálum.
Réttur lífsins segja andstæðingar en réttur til frelsis segja stuðningsmenn
Fjölmargir repúblikanar telja að snúa eigi við dómi hæstaréttar frá 1973 og leggja takmarkanir á fóstureyðingar líkt og gert var fyrr á síðustu öld. Meðal annars var George W. Bush, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, á þeirri skoðun og ríkisstjóri Kansas, repúblikaninn, Sam Brownback, hefur undanfarin ár barist fyrir því að í Kansas verði reglur hertar varðandi rétt á fóstureyðingum.
Hann segir þetta snúast um réttinn til lífs og hann muni ekki gefast upp fyrr en allir fái sama rétt til þess að lifa. Andstæðingar fóstureyðinga hafa sett Browncback í forsæti baráttu sinnar enda hefur hann náð fram ýmsum breytingum á fóstureyðingarlöggjöfinni í Kansas þau tvö ár sem hann hefur gegnt starfi ríkisstjóra.
En forseti Bandaríkjanna Barack Obama er ekki á sömu skoðun ólíkt Mitt Romney, sem var frambjóðandi Repúblikanaflokksins í forsetakosningunum í fyrra. Í tilefni af fjörtíu ár eru liðin frá úrskurði hæstaréttar sagði hann að nú væri tækifæri til þess að endurnýja stuðninginn við rétt kvenna til að fara í fóstureyðingu. Vernda þurfi heilsu og frelsi bandarískra kvenna og þau grundvallarsjónarmið að ríkið eigi ekki að grípa inn í innstu málefni fjölskyldna og að konur eigi rétt á að taka sjálfar ákvarðanir varðandi líkama sinn og heilsu.