Hópur sérfræðinga frá Kripos, norsku rannsóknarlögreglunni, mun í dag hefjast handa við að kanna hvort þeir fimm Norðmenn sem enn er saknað eftir árás og gíslatöku í gasvinnslustöð í Alsír, séu á meðal þeirra sem fundist hafa þar látnir. Jens Stoltenberg forsætisráðherra Noregs mun í dag gera grein fyrir stöðu mála á norska Stórþinginu.
Áður höfðu norsk yfirvöld fengið þau skilaboð frá alsírskum stjórnvöldum að Kripos fengi einungis að kanna lík þeirra sem hugsanlega gætu verið norskir, en nú hefur Kripos fengið leyfi til að rannsaka öll líkin, sem mörg hver eru afar illa farin.
Sérfræðingarnir hafa sér til stuðnings bæði DNA-sýni úr Norðmönnunum og tannlæknaskýrslur þeirra, samkvæmt frétt norsku sjónvarpsstöðvarinnar TV2.