Versta tilræðið á friðartímum

Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs.
Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs. AFP

Árásin á In Amenas gasvinnslustöðina í Alsír var versta tilræði gegn efnahagslegum hagsmunum Noregs á friðartímum. Hún var ofbeldisfull tilraun til þess að hamla löglegri starfsemi alþjóðafyrirtækis og ógn við friðsamlegt samstarf fólks af ólíkum þjóðernum. Þetta sagði Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, á norska Stórþinginu í morgun þar sem hann gerði grein fyrir stöðu mála.

Fimm Norðmanna, sem teknir voru sem gíslar af alsírskum hryðjuverkamönnum í gasvinnslustöðinni, er enn saknað. Þeir voru allir starfsmenn norska ríkisolíufélagsins Statoil.

„Það er mikilvægt að ríkisstjórnin sendi skilaboð: hryðjuverkamönnunum skal ekki takast að hóta okkur, þeim skal ekki takast að ákveða hvar norsk fyrirtæki starfa eða með hvaða löndum við kjósum að starfa með. Þeim skal ekki takast að breiða út ótta meðal almennings,“ sagði Stoltenberg.

Hann sagði að norska lögreglan hefði veitt sérfræðiaðstoð sína varðandi samningaviðræður við hryðjuverkamennina og að norsk stjórnvöld hefðu verið í miklum samskiptum við þau alsírsku á meðan á gíslatökunni stóð. Samstarfið hefði verið gott og varhugavert væri að leggja of þungan dóm á viðbrögð stjórnvalda og lögreglu í Alsír. 

„Að fást við gíslatöku fjölda manna sem meira en 30 hryðjuverkamenn eiga aðild að er erfitt og krefjandi verkefni fyrir hverja þjóð. Að auki átti árásin sér stað á einum eyðilegasta stað jarðarinnar,“ sagði Stoltenberg. „Ábyrgðin á þeim mannlega harmleik sem þarna átti sér stað liggur algerlega hjá hryðjuverkamönnunum.“

Hann sagði að fyrirhugaðar væru viðræður á mill norska og alsírskra stjórnvalda um hvernig Noregur gæti stutt Alsír í baráttunni gegn íslömskum öfgamönnum og hryðjuverkum.

Frétt Aftenposten

In Amenas gasvinnslustöðin í Alsír.
In Amenas gasvinnslustöðin í Alsír. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert