Utanríkisráðherra Noregs, Espen Barth Eide, telur að íslömsku vígamennirnir, sem rændu starfsmönnum gasvinnslu í Alsír, hafi notið aðstoðar innan úr gasvinnslunni. Þetta kemur fram í viðtali við Eide í Verdens Gang í dag.
Við höfum fengið upplýsingar um að hryðjuverkamennirnir hafi haft fólk innandyra sem undirbjó aðgerðir í nokkurn tíma, segir Eide í vitalinu. Meðal annars hafi þeir komið búnaði fyrir í gasvinnslunni fyrirfram.
Samkvæmt heimildum VG höfðu mannræningjarnir komið vopnum fyrir áður en þeir tóku gíslana fanga þann 16. janúar sl. Hundruð gísla voru í haldi mannræningjanna. Að minnsta kosti 38 gíslar létust þegar alsírski herinn gerði árás á gasvinnsluna.
Enn er ekki vitað um afdrif fimm Norðmanna en þeir störfuðu fyrir norska olíufyrirtækið Statoil sem rak gasvinnsluna ásamt BP og Sonatrach.