„Pönkaði prinsinn“, Karel Schwarzenberg, utanríkisráðherra Tékklands og forsetaframbjóðandi, heillar unga kjósendur og er nú talið að hann hafi betur í seinni umferð forsetakosninganna sem nú fara fram í Tékklandi. Unga fólkið setur aldur hans ekki fyrir sig en Schwarzenberg er 75 ára að aldri.
Stuðningsmenn Schwarzenbergs eru duglegir að dreifa merkjum og veggspjöldum með mynd af honum þar sem hann er sýndur með bleikan hanakamb. Yfir hálf milljón hefur „líkað“ við Facebook-síðu hans og meðal þess sem framboð hans bauð kjósendum upp á voru rokktónleikar.
Prinsinn keppir nú um hylli kjósenda við Miloš Zeman, fyrrverandi forsætisráðherra, en síðari umferð forsetakosninganna fer fram í dag og á morgun. Kom það ýmsum á óvart að Schwarzenberg hefði fengið næstflest atkvæði í fyrri umferðinni en það er einkum ungt fólk sem styður við bakið á honum.
Sá eini sem kemur til greina
„Í mínum huga er Karel eini forsetaframbjóðandinn sem kemur til greina og sá eini sem er ekki knúinn áfram af valdasýki,“ segir David Cerny, listamaðurinn sem bjó til veggspjöld framboðsins og stýrði verkefninu Entropa sem vakti mikla athygli svo ekki meira sé sagt, þegar Tékkar tóku við forsæti Evrópusambandsins árið 2009.
Entropa var stór innsetning með framlagi listamanna frá öllum 27 aðildarlöndum á þeim tíma, eins konar hreyfi- og hljóð-landakort er sýndi m.a. hug fólks til Evrópu. Verkið var sett upp í anddyri húsakynna ráðherraráðs ESB í Brussel en ráðið er æðsta valdastofnun sambandsins.
Hugmyndin mun hafa verið að gera gys að staðalhugmyndum um þjóðir. Einingin sem átti að tákna Rúmeníu var Drakúla-þemagarður, Holland sýnt á floti, stöku íslamskir bænaturnar standa þó upp úr hafinu, líklega til að minna á deilurnar vegna minnihlutahóps múslíma í landinu.
Einingin fyrir Frakkland er eins konar skjaldarmerki með orðinu Verkfall. Með lítilli fyrirhöfn má grilla í hakakrossmynstur í einingunni fyrir Þýskaland sem er eins konar loftmynd af hraðbrautaneti. Bretland sést hins vegar hvergi, átti það að tákna að Bretar vildu ekkert vera í sambandinu. Lúxemborg er sýnd sem gullklumpur á uppboði og Svíþjóð sem flatur IKEA-pakki.
Það var ekki fyrr en Búlgaría – sýnd sem frumstætt salerni – mótmælti að Tékkar fóru að krefja skipuleggjanda verkefnisins, David Cerny, skýringa. Viðurkenndi hann í kjölfarið að þetta væri gabb. Hann hefði sjálfur gert öll verkin ásamt tveimur aðstoðarmönnum og skáldað upp nöfnin á listamönnunum frá ríkjunum 27.
Aðalborið gáfumenni
Margir Tékkar hafi fengið meira en nóg af spilltum stjórnmálamönnum og sjá hinn aðalborna Schwarzenberg sem frelsandi engil, gáfumann sem er heiðarlegur og traustur að mati fjölmargra kjósenda.
„Ef ég væri ekki svona heimskur hefði ég notið lífsins á eftirlaunum. Farið út í skóg á veiðar, ferðast um heiminn og notið góðra vína,“ var eitt sinn haft eftir prinsinum litríka. „En þar sem ég er heimskur fór ég í stjórnmál,“ bætti hann við en þessi „heimski“ maður talar meðal annars sex tungumál reiprennandi.
Frambjóðandinn með ellefu nöfnin
Forsetaframbjóðandinn, sem heitir fullu nafni Karl Johannes Nepomuk Josef Norbert Friedrich Antonius Wratislaw Mena Fuerst zu Schwarzenberg, kom fyrst fram á sjónarsvið stjórnmála þegar hann var aðstoðarmaður Václavs Havels, sem leiddi fjólubláu byltinguna gegn kommúnistum árið 1989. Havel var forseti Tékkóslóvakíu árið 1989-1993 og Tékklands frá 1993 til 2003.
Schwarzenberg hefur sagt að hann hafi ekki hikað eitt augnablik þegar Havel óskaði eftir aðstoð hans og frá því hafi hann haldið á lofti hugmyndum Havels í Evrópumálum og mannréttindamálum.
Flúði kommúnismann
Prinsinn fæddist í Prag þann 10. desember 1937 en hann flúði ásamt fjölskyldu sinni úr landi árið 1948 þegar kommúnistar tóku völdin í Tékkóslóvakíu. Hann nam lög og skógarfræði í háskólum í Austurríki og Þýskalandi án þess þó að ljúka prófgráðu.
Schwarzenberg tók síðar við fjölskylduauðnum, þar á meðal skóglendi í eigu fjölskyldunnar og Schwarzenberg-hallarinnar og hótel í Vínarborg. Árið 1984, er hann var enn í útlegð, tók hann við sem forseti mannréttindanefndarinnar International Helsinki Committee.
Sofnar yfir bulli annarra
Eftir fall kommúnismans árið 1989 sneri hann aftur til heimalandsins til þess að vinna fyrir Havel og við fall kommúnismans endurheimti hann stóran hluta af fjölskylduauðnum sem kommúnistastjórnin hafði sölsað undir sig. Schwarzenberg, sem er með tékkneskan og svissneskan ríkisborgararétt, fór á þing árið 2004 og varð utanríkisráðherra árið 2007. Hann á tvo syni og dóttur með eiginkonunni Therese, en þau gengu í hjónaband árið 1967 og aftur árið 2008 eftir að hafa skilið árið 1998.
Forsetaframbjóðandinn fer ekki leynt með ást sína á góðum mat, víni og viskíi en hann er líka þekktur fyrir að dotta á pólitískum fundum. „Ég sofna þegar aðrir bulla,“ játaði hann eitt sinn fyrir fréttamönnum.
Yfir 8,4 milljónir eru á kjörskrá og er gert ráð fyrir að kjörsókn verði um 60%. Kjörstöðum verður lokað síðdegis á morgun og er von á niðurstöðunni síðar þann dag.
Miloš Zeman og Karel Schwarzenberg eru með svipað fylgi meðal kjósenda ef marka má skoðanakannanir undanfarna daga. Í fyrri umferðinni fékk Zeman 24,2% atkvæða og Schwarzenberg 23,4% en undanfarna daga hefur Schwarzenberg aukið við fylgi sitt, einkum meðal ungra kjósenda. Það verður því fróðlegt að sjá hvort næsti forseti Tékklands verður hinn 75 ára gamli prins eða Zeman sem er litlu yngri.