Norska utanríkisráðuneytið staðfesti fyrir skömmu að tveir af þeim fimm Norðmönnum, starfsmönnum Statoil, sem saknað hefur verið frá árásinni á gasvinnslustöðina í Alsír í síðustu viku, séu látnir. Þriggja er enn saknað.
Mennirnir sem eru látnir heita Tore Bech 58 ára og Thomas Snekkevik 35 ára. Þeir eru báðir frá Bergen.
Utanríkisráðuneytið telur að ólíklegt sé að þeir þrír, sem enn er saknað, finnist á lífi, en leit að þeim mun halda áfram.
Hópur átta manna var sendur til Alsír á vegum norska utanríkisráðuneytisins til að leita Norðmannanna. Þeir höfðu með sér DNA-upplýsingar þeirra og tannlækna- og læknaskýrslur auk ýmissa upplýsinga þannig að auðveldara yrði að bera kennsl á þá.
Samkvæmt frétt Aftenposten munu yfirvöld í Alsír leita mannanna áfram og norska ríkissjónvarpið, NRK, segir að norski sérfræðingahópurinn muni halda störfum sínum áfram í Alsír.
„Ég tók á móti skilaboðunum um að þeir tveir væru látnir með sorg í hjarta,“ sagði Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, í samtali við NRK. „Við bíðum áfram fregna af afdrifum hinna þriggja landa okkar.“
17 manns á vegum Statoil störfuðu í gasvinnslustöðinni. Þrír voru Alsíringar, einn Kanadamaður og 13 Norðmenn.