Egypskur dómstóll dæmdi í dag 21 fótboltabullu til dauða vegna blóðugra óeirða sem brutust út eftir fótboltaleik í febrúar 2012. Í átökunum létu 74 lífið. Eftir að dómurinn var kveðinn upp í morgun kom til átaka við fangelsið þar sem hinum dauðadæmdu er haldið og voru tveir lögreglumenn skotnir til bana.
Ástandið í Egyptalandi virðist afar eldfimt, en í gær kom einnig til harðra átaka um allt land milli mótmælenda og lögreglu á tveggja ára afmæli uppreisnarinnar í landinu. Að minnsta kosti 7 létu lífið og 450 særðust.
Dánarorsök flestra þeirra 74 sem létu lífið í fótboltaóeirðunum í fyrra var höfuðhögg, skurður eða köfnun. Óeirðirnar brutust út eftir leik al-Masry og al-Ahly á leikvandi í borgini Port Said. Stuðningsmenn heimaliðsins al-Masry ruddust inn á völlinn í lok leiksins og réðust á leikmenn gestaliðsins al-Ahly frá Kaíró og köstuðu grjóti og flugeldum að stuðningsmönnum liðsins. Öryggiverðir gerðu lítið til að hindra eða stöðva átökin.
Þegar dauðadómurinn var kveðinn upp í dag voru fagnaðaróp rekin upp í réttarsalnum. Stuðningsmenn og ættingjar hinna dæmdu flykktust þó að Port Said fangelsinu í mótmælaskyni og kom þar til átak við lögreglu. Á sama tíma flykktust stuðningsmenn al-Ahly að höfuðstöðvum liðsins í Kaíró og fögnuðu dómnum.
52 til viðbótar eru ákærðir vegna óeirðanna og verður dómur kveðinn upp yfir þeim þann 9. mars.