Hryðjuverkasamtökin al-Qaida hótuðu árið 2011 að sprengja flugvél sem flutti starfsmenn norska olíufélagsins Statoil til starfsstöðva þess í Alsír. Vélin flutti einnig starfsmenn bandarískra og breskra olíufélaga.
Hótunin barst í september árið 2011 og beindist að leiguflugi á milli Gatwick-flugvallar í London og Hassi Messaoud-flugvallar í Alsír, en frá þeim síðarnefnda eru starfsmennirnir síðan fluttir m.a. til gasvinnslustöðvanna In Salah og In Amenas þar sem Statoil er með starfsemi.
Að hótuninni stóð hinn alsírski armur samtakanna, Mahgreb, sem þá, líkt og nú, voru undir forystu Mokhtars Belmokhtar, illræmds hryðjuverkamanns úr röðum harðlínu-íslamista.
Vegna hótananna bönnuðu bandarísku olíufélögin Petrofac, Anadarko og ConocoPhilips starfsmönnum sínum að ferðast með leiguflugvélinni. Breska olíufélagið BP og Statoil ákváðu hins vegar að senda starfsmenn sína áfram með leiguflugvélinni.
Í frétt Verdens Gang í dag segir einn fyrrverandi starfsmaður Statoil að honum hafi verið kunnugt um hótanir al-Qaida og að honum hafi ekki verið um sel. „En við fengum sterk skilaboð um að halda þessari vitneskju fyrir okkur sjálf,“ segir hann.
Talsmenn Statoil hafa ekki viljað tjá sig um málið.