Írönsk stjórnvöld segja að geimferð apa nokkurs hafi verið vel heppnuð. Apinn var um borð í Pishgam-flaug sem fór í 120 km hæð frá jörðu. Hún lenti svo heilu og höldnu á jörðinni, að sögn varnarmálaráðuneytis landsins.
Íranska ríkissjónvarpið hefur sýnt myndir af því þegar apinn var fluttur um borð í flaugina, segir í frétt BBC.
Vestræn ríki hafa lýst áhyggjum af því að geimferðaáætlun Írana sé notuð í hernaðarlegum tilgangi, m.a. til að prófa langdrægar eldflaugar.
Þessu hafa írönsk stjórnvöld alfarið hafnað.