Nýjar vísbendingar um morðið á Palme

Olof Palme.
Olof Palme.

Frá því að Olof Palme, forsætisráðherra Svíþjóðar, var skotinn til bana  28. febrúar árið 1986 hafa margar kenningar komið upp um hver myrti hann. Nú hafa nýjar vísbendingar borist sem benda til þes að sænska lögreglan hafi tengst morðinu.

Í tæp 27 ár hefur sænska lögreglan varið óteljandi klukkustundum í rannsókn málsins, en er engu nær um hver myrti Palme. En það gæti breyst fljótlega, því nýtt vitni hefur gefið sig fram. Samkvæmt sænska dagblaðinu Aftonbladet hefur vitni, sem kallað er „Johan“ greint frá því að lögreglumaður nokkur hafi árið 1985 boðið honum greiðslu fyrir að skjóta Palme til bana. Hann hafi neitað því, en fimm mánuðum síðar var Palme myrtur.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem vísbendingar um að lögreglan hafi tengst málinu koma fram. Þessar nýju upplýsingar eru umdeildar. Einn þeirra sem er þeirrar skoðunar að rétt sé að kanna þær nánar er hæstaréttardómarinn Göran Lambertz. „Ég tel virkilega að Palme-rannsakendurnir ættu að fylgja þessu spori gaumgæfilega. Rannsóknin hefur að mestu leyti sniðgengið það,“ segir hann og á þar við hugsanlega aðild lögreglu.

Hann hefur áður haldið því fram að þeir sem fara með rannsókn málsins hunsi allar vísbendingar um tengsl lögreglu.

Hefði lekið fyrir löngu

Tommy Lindström, fyrrverandi yfirmaður rannsóknarlögreglu sænska ríkisins, er þessu ósammála. „Ég tel að ef lögreglan hefði átt einhvern hlut að máli hefði því verið lekið fyrir löngu,“ segir hann.

Olof Palme var skotinn í bakið á mótum  Sveavägen og Tunnelgatan í Stokkhólmi að kvöldi þess 28. febrúar 1986. Þá var hann á leið heim til sín, ásamt eiginkonu sinni Lisbet, eftir að þau höfðu verið í kvikmyndahúsi. Síbrotamaður að nafni Christer Pettersson var síðar handtekinn, ákærður fyrir morðið og dæmdur sekur í héraðsdómi en síðan sýknaður fyrir hæstarétti.

Minnisskjöldur um Olof Palme, á þeim stað þar sem hann …
Minnisskjöldur um Olof Palme, á þeim stað þar sem hann var myrtur þann 28. febrúar 1986. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert