Cameron heldur til Alsír

David Cameron forsætisráðherra Bretlands.
David Cameron forsætisráðherra Bretlands. AFP

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, heldur af stað í tveggja daga heimsókn til Alsír á morgun. Heimsóknin er farin í kjölfar gíslatöku í gasvinnslustöð þar í landi þar sem 37 starfsmenn norskra, breskra og bandarískra olíufélaga létu lífið, þar af fjórir Bretar. Tveggja Breta er enn saknað og eru þeir nú taldir af.

Cameron mun hitta að máli alsírskan starfsbróður sinn, Abdelmalek Sellal auk forseta landsins, Abdelaziz Bouteflika.

Að heimsókninni lokinni mun Cameron halda för sinni áfram og sækja Líberíu heim þar sem hann verður annar stjórnenda alþjóðlegrar þróunarráðstefnu sem halda á þar í landi.

Auk gíslanna sem létust í Alsír létu 29 úr hópi mannræningjanna, sem eru íslamskir vígamenn, lífið. Bresk yfirvöld og yfirvöld annarra ríkja sem þarna áttu hlut að máli hafa gagnrýnt að alsírsk stjórnvöld létu ekki vita fyrirfram af því að senda ætti herinn á vettvang og gera áhlaup á mannræningjana.

Líklegt er talið að gíslatökumálið beri á góma á fundi þjóðarleiðtoganna, auk þess sem þeir muni ræða hina vaxandi hættu sem stafar af íslömskum öfgatrúarmönnum í Norður-Afríku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert