Norðmannsins er enn leitað

In Amenas gasvinnslustöðin í Alsír.
In Amenas gasvinnslustöðin í Alsír. AFP

Enn er leitað að Norðmanni, sem saknað  hefur verið eftir árás íslamskra vígamanna á gasvinnslustöðina In Amenas í Alsír fyrir tæpum tveimur vikum. Fimm norskra starfsmanna norska olíufélagsins Statoil var saknað í um viku, þar til kennsl voru borin á lík fjögurra þeirra fyrir nokkrum dögum. 

Norska utanríkisráðuneytið hefur tilkynnt að ólíklegt sé að maðurinn finnist á lífi.

Norska rannsóknarlögreglan mun fara á svæðið á næstunni, ásamt lögreglumönnum frá öðrum þeim löndum þaðan sem hinir látnu voru, en alls létust 52 erlendir starfsmenn breskra og bandarískra olíufélaga, auk Statoil í árásinni og gíslatökunni sem fylgdi í kjölfarið.

Lögreglumennirnir munu safna saman eigum hinna látnu og fara með þær heim til ættingja þeirra.

Lík Norðmannanna fjögurra hafa enn ekki verið flutt til Noregs og óvíst er hvenær það verður, en vonast er til þess að það verði á morgun, samkvæmt umfjöllun norska dagblaðsins Aftenposten.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert