Hundruð íslamista fallin í Malí

Malískar konur selja korn á markaði í bænum Douentza sem …
Malískar konur selja korn á markaði í bænum Douentza sem áður var á valdi íslamista. AFP

Síðan Frakkar hófu innrás í Malí í lok janúar hafa hundruð skæruliða íslamista fallið í valinn, að sögn varnarmálaráðherra Frakklands, Jean-Yves Le Drian. Skæruliðarnir hafa fallið bæði í loftárásum og í beinum átökum við franska hermenn á jörðu niðri.

Utanríkisráðherra Frakklands, Laurent Fabius, segir nú hugsanlegt að byrjað verði að kalla franska hermenn aftur heim strax í mars ef allt gangi eftir. Um 4000 franskir hermenn eru nú í Malí. Varnarmálaráðherrann segir að Kidal, síðasti bærinn þar sem íslamistar höfðu undirtökin, sé nú undir franskri stjórn. Loftárásir halda þó áfram á ætlaða dvalarstaði uppreisnarmanna norður af bænum.

Aðeins einn franskur hermaður hefur fallið í átökunum til þessa og var það þyrluflugmaður sem lét lífið strax í upphafi innrásarinnar.

Fulltrúar Evrópu- og Afríkusambandsins, Alþjóðabankans og tuga ríkja hafa undanfarið fundað í Brussel í Belgíu um framtíð Malí. Rætt er um að halda lýðræðislegar kosningar í júlí og láta fjármagn renna til þess að halda úti alþjóðlegu herliði og hjálparstarfi í landinu á meðan verið er að byggja samfélagið upp að nýju eftir niðurrif íslamista.

Ungur drengur í Malí sýnir ljósmyndara AFP byssuskot sem hann …
Ungur drengur í Malí sýnir ljósmyndara AFP byssuskot sem hann fann í rústum húss eftir loftárás Frakka. AFP
Malískar konur selja harðfisk á markaði í bænum Douentza sem …
Malískar konur selja harðfisk á markaði í bænum Douentza sem áður var á valdi íslamista. AFP
Sítrónur til sölu á markaði í bænum Douentza sem áður …
Sítrónur til sölu á markaði í bænum Douentza sem áður var á valdi íslamista. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert