Gyðingar í frönsku borginni Toulouse voru óþyrmilega minntir á skelfilegan atburð á síðasta ári fyrir utan Ohr Torah-skólann síðdegis í gær þegar kona otaði hnífi að nemanda skólans. Fyrir tæpu ári skaut Mohamed Merah fjóra, einn kennara og þrjú börn, til bana fyrir utan skólann.
Nemandinn náði að flýja inn í skólann í gær og í ljós kom að konan á við geðræn vandamál að stríða og hefur oft komist í kast við lögin.
„Óttinn er alls staðar,“ segir Arie Bensemhoun, stjórnarformaður gyðingasamfélagsins í Toulouse. „Með hverjum deginum sem líður sjáum við það betur að Mohamed Merah er ekki sá eini.“
Merah skaut sjö til bana á átta dögum í Toulouse áður en hann lést í umsátri lögreglu.