Réttað í Steubenvillemálinu í mars

Smábærinn Steubenville í Ohio ríki í Bandaríkjunum hefur komist í …
Smábærinn Steubenville í Ohio ríki í Bandaríkjunum hefur komist í heimsfréttirnar undanfarna mánuði og ekki af góðu.

Réttarhöld yfir tveimur 16 ára piltum, sem ákærðir hafa verið fyrir að nauðga jafnöldru sinni í bænum Steubenville í Ohio í Bandaríkjunum verða opin og hefjast um miðjan næsta mánuð. Þau áttu upphaflega að hefjast í næstu viku.

Málið hefur vakið athygli víða, bæði í Bandaríkjunum og utan þeirra, en piltarnir eru sakaðir um að hafa gefið stúlkunni deyfilyf og farið síðan með hana á milli partía þar sem þeir misþyrmdu henni kynferðislega og niðurlægðu á ýmsan hátt, auk þess að nauðga henni tvisvar.  Þeir og aðrir tóku af þessu myndir og myndskeið sem þeir settu á netið.  

Þetta gerðist í ágúst í fyrra.

Fótboltakappar í guðatölu

Piltarnir eru báðir í fótboltaliði menntaskóla bæjarins, en liðsmenn þess eru nánast í guðatölu meðal bæjarbúa. Algeng viðbrögð við því, þegar stúlkan lagði fram kæru, voru að hún hefði verið að reyna að koma sér í mjúkinn hjá „vinsælu strákunum“ hún hafi átt þetta skilið og að með kærunni væri hún að kasta rýrð á fótboltaliðið og bæjarfélagið í heild.  

Vitni, sem talin eru vera hliðholl sakborningunum, segjast óttast Anonymous-hópinn, sem er hópur tölvuhakkara og hafa sum vitnanna ráðið sér lögmann til að gæta hagsmuna sinna. Anonymous-hópurinn hefur lýst yfir stuðningi við stúlkuna og hafa meðlimir hans m.a. grafið upp myndbönd af stúlkunni sem piltarnir höfðu sett á netið og síðan eytt.

Hefur haft ýmis áhrif

Málið hefur haft margvísleg áhrif. Til dæmis rannsakar FBI, bandaríska alríkislögreglan,  nú hvort lögreglustjóri bæjarins hafi fengið líflátshótanir og einnig eru tölvupóstar þar sem fjallað er á neikvæðan hátt á ýmsa einstaklinga og yfirvöld í Steubenville í rannsókn.

Þá hafa tugir þúsunda skrifað undir yfirlýsingu á netinu þar sem þess er krafist að allir þeir sem horfðu á glæpinn og létu hjá líða að koma stúlkunni til aðstoðar verði sóttir til saka.

Margir hafa orðið til þess að gagnrýna málsmeðferðina og segja að sú staðreynd að piltarnir séu í fótboltaliðinu hafi haft áhrif á rannsókn málsins. Saksóknari sýslunnar og sá dómari sem fer með mál unglinga sögðust til dæmis hvorugur geta farið með málið þar sem þeir tengdust báðir fótboltaliðinu.

Frétt mbl.is: Nauðgunarákæra klýfur smábæ

Ítarlega er fjallað um málið á vef bandarísku fréttastöðvarinnar CBS

Frá mótmælum við dómshúsið í Steubenville.
Frá mótmælum við dómshúsið í Steubenville.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert